Everton með sigur í sjö marka leik

Calvert-Lewin var í stuði í dag.
Calvert-Lewin var í stuði í dag. getty/Alex Livesey

Leikur Everton og West Bromwich Albion sem lauk rétt í þessu var bráðfjörugur, sjö mörk voru skoruð, þrenna og tvö rauð spjöld fóru á loft. Everton vann að lokum 5-2 á Goodison Park.

Grady Diangana kom gestunum í West Brom óvænt yfir með skoti fyrir utan teig, en Jordan Pickford í marki Everton átti að gera betur í því marki. 

Dominic Calvert-Lewin jafnaði leikinn fyrir Everton á 31. mínútu og Kólumbíumaðurinn James Rodriguez kom Everton síðan yfir á 45. mínútu, sem var fyrsta mark hans fyrir félagið.

Skömmu síðar fékk Kieran Gibbs, leikmaður W.B.A., beint rautt spjald eftir að hann sló til James Rodriguez sem féll við það í jörðina. Slaven Bilic, þjálfari West Brom, fékk rautt spjald í hálfleik fyrir mótmæli á þessari ákvörðun dómarans. Mikill hiti á lokamínútum fyrri hálfleiks.

Manni færri náðu W.B.A. að jafna leikinn í 2-2, það gerði Matheus Pereira á 47. mínútu. 

Michael Keane kom Everton aftur í forystu á 54. mínútu og Calvert-Lewin bætti við tveimur mörkum á innan við þremur mínútum, á 64. og 66. mínútu og fullkomnaði þrennu sína. Gylfi Þór Sigurðsson kom inn á af varamannabekknum á 65. mínútu og spilaði síðasta tæpa hálftímann í leiknum. 

Everton byrjar tímabilið því afar vel, sex stig af sex mögulegum í fyrstu tveimur leikjunum. W.B.A. er hinsvegar án stiga eftir tvo leiki og hafa tapað báðum leikjunum með þremur mörkum. 

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira