Íslenski boltinn

Hannes Þór Halldórsson: Það var mikið gólað, gargað og gjammað á hliðarlínunni

Atli Arason skrifar
Hannes Þór, markvörður Vals og íslenska landsliðsins.
Hannes Þór, markvörður Vals og íslenska landsliðsins. Mynd/Stöð 2 Sport

Hannes Þór Halldórsson var fullur sjálfstrausts í leikslok eftir 4-2 sigur Vals gegn ÍA á Akranesi í gær í Pepsi Max deild karla.

„Mér líður ótrúlega vel. Þetta var mikilvægur og erfiður sigur fyrir okkur. Skagamenn eru með mjög flottan mannskap og það er erfitt að koma hingað. Það var mikið gólað, gargað og gjammað á hliðarlínunni í dag en það skilaði þeim ekki neinu inn á vellinum í dag og við kláruðum þetta og erum mjög ánægðir með það,“ sagði glaður Hannes Þór Halldórsson í viðtali eftir leik.

Gólið, gargið og gjammið sem Hannes minnist á var sérstaklega hávært þegar Skagamenn töldu sig eiga að fá vítaspyrnu á 90 mínútu leiksins í stöðunni 2-3. Hannes telur að Guðmundur Ársæll, dómari leiksins, hafi tekið rétta ákvörðun.

„Ég er ekki viss um að ég hafi verið með besta útsýnið af því að frá mér séð þá hendir hann sér bara fyrir boltann með skrokkinn og mér sýnist boltinn enda í maganum á honum. Besta útsýnið hefur sennilega verið hinu megin frá því hann snýr baki í mig en frá mér séð þá var þetta aldrei hendi,“ sagði Hannes Þór um atvikið umdeilda.

Sigurinn í gær er sá áttundi í röð hjá Valsmönnum sem hafa nú átta stiga forskot á toppi deildarinnar. Aðspurður að því hvað það væri sem skóp þennan sigur í gær sagði Hannes:

„Það er ýmislegt. Við erum með einstaklingsgæði þarna framarlega á vellinum en síðan erum við orðnir vanir því að vinna núna og erum með mikið sjálfstraust og þannig getum við siglt sigrum heim. Svo er þetta líka smá seigla því Skagamennirnir komu á okkur í lokin en við náum að standa það af okkur.“

Hannes lagði upp annað mark leiksins með þó smá aðstoð frá Skagamönnum sem flikka löngum bolta Hannesar áfram á Sigurð Egill sem skorar markið. Markvörðurinn reyndi var ekki í neinum vafa að hann ætti að fá stoðsendinguna skráða á sig.

„Jú við verðum að gera það. Við lærðum þetta af Jóa Kalla, þetta er Skagaleiðinn. Langur bolti fram frá markmanni sem setur einhvern í gegn og skorar mark,“ sagði skælbrosandi Hannes Þór Halldórsson að lokum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×