Íslenski boltinn

Jóhannes Karl: Virki­lega svekktur með frammi­stöðu dómarans í leiknum

Atli Arason skrifar
Jóhannes Karl Guðjónsson, þjálfari ÍA og Egill Arnar Sigurþórsson dómari. Egill dæmdi þó ekki leikinn í kvöld.
Jóhannes Karl Guðjónsson, þjálfari ÍA og Egill Arnar Sigurþórsson dómari. Egill dæmdi þó ekki leikinn í kvöld. Vísir/Daníel

Jóhannes Karl, þjálfari ÍA, var allt annað en sáttur í viðtali eftir 4-2 tap Skagamanna gegn toppliði Vals í Pepsi Max deild karla í kvöld. Skagamenn vildu fá vítaspyrnu í stöðunni 3-2 fyrir Val og varð allt brjálað er dómari leiksins ákvað að láta leikinn halda áfram frekar en að dæma hendi á Rasmus Christiansen innan vítateigs.

„Mikið svekkelsi. Ég er gífurlega svekktur með það hvernig við færum Valsmönnum tvö mörk á silfurfati. Ég er virkilega svektur með frammistöðu dómarans í leiknum. Við áttum að fá víti hérna í restina, þriðja mark Vals er rangstaða. Það virtist vera að dómarinn hafði engan vilja til að dæma þetta víti eða hlusta á aðstoðardómarann sem að klárlega kallaði að þetta væri víti. Hann kallaði það meira en einu sinni og meira en tvisvar sinnum. Aðstoðardómarinn sem var í fínni stöðu til að sjá þetta vildi dæma víti en ekki dómarinn. Þó að fyrri hálfleikurinn hafi verið slakur hjá okkur þá er ég svekktur að fá ekkert út úr þessum leik því mér fannst við eiga það skilið miðað við það sem við lögðum á okkur,“ sagði Jóhannes Karl

Valsliðið er á rosa siglingu þessa dagana og var þetta áttundi sigur liðsins í röð í deildinni. Það er hins vegar rosa erfitt að stöðva Val þegar andstæðingur þeirra gefur þeim fótboltamörk. Jóhannes var spurður nánar út í mörkin sem Valur skoraði í fyrri hálfleik.

„Þetta er náttúrulega bara slys. Við höfum verið að reyna að vinna í því að loka fyrir markið okkar. Við höfum verið að reyna að vera þéttari í varnarleiknum sem við gerðum að lang stæstu leyti í fyrri hálfleik. Það er markspyrna frá Hannesi sem við misreiknum svo er þetta bara slys þegar Árni spyrnir boltanum í sinn eigin leikmann, þetta getur skeð og þetta er ógeðslega sárt. Eftirleikurinn fyrir Valsara í fyrri hálfleik eftir að fá tvö mörk gefins á silfufati var auðveldur en seinni hálfleikurinn var erfiður fyrir þá og ég er ánægður með það,“ sagði Jóhannes Karl um fyrstu tvö mörk leiksins.

Tryggvi Hrafn Haraldsson hefur verið mikið orðaður við önnur félög í sumar og Jóhannes Karl slapp ekki úr viðtali án þess að verða spurður út í stöðu mála hjá honum. Aðspurður sagði Jói:

„Tryggvi er samningsbundinn okkur út þetta tímabil. Hann er leikmaður okkar og hann var í gulu treyjunni í dag og það er bara staðan.“

Ef ÍA ætlar ekki að sogast niður í fallsvæðið þá verða þeir að forðast ósigur í næsta leik gegn Gróttu. Jóhannes biður sína menn að gleyma þessum leik.

„Við sýndum hörku karakter í seinni hálfleiknum og ég er svekktur að fá ekki neitt út úr leiknum. Við þurfum samt að skilja við þennan leik núnna því hann er búin, því miður. Þó svo að dómarinn hafi ekki haft kjark til að dæma þetta víti þá þurfum við gleyma þessu því Grótta er næsti leikur og þar ætlum við að sækja 3 stig,“ sagði Jóhannes Karl að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×