Erlent

Ko­lesni­kova á­kærð fyrir að hvetja til undir­róðurs

Sylvía Hall skrifar
Maria Kolesnikova er ein þeirra kvenna sem bauð sig fram gegn Alexander Lúkasjenkó.
Maria Kolesnikova er ein þeirra kvenna sem bauð sig fram gegn Alexander Lúkasjenkó. Vísir/AP

Stjórnarandstæðingurinn Maria Kolesnikova hefur verið ákærð á grundvelli öryggislaga fyrir að hvetja til undirróðurs gegn hvítrússneskum yfirvöldum. Kolesnikova er ein þriggja kvenna sem tóku höndum saman í baráttunni gegn Alexander Lúkasjenkó forseta í forsetakosningunum í landinu í ágúst síðastliðnum.

Greint er frá ákærunni á vef breska ríkisútvarpsins.

Mikil mótmæli brutust út í landinu í kjölfar kosninganna en úrslitum þeirra hefur verið harðlega mótmælt. Lúkasjenkó, sem oft er kallaður síðasti einræðisherra Evrópu, hefur verið sakaður um kosningasvik en samkvæmt opinberum tölum á hann að hafa hlotið um áttatíu prósent atkvæða. Hann hefur setið á forsetastóli í 26 ár og er sá eini sem hefur gegnt embættinu frá því að landið varð sjálfstætt.

Kolesnikova var sú eina í hópi kvennanna sem flúði ekki land í kjölfar kosninganna. Er hún sögð hafa rifið vegabréf sitt í sundur þegar yfirvöld reyndu að vísa henni úr landi en greint var frá því í síðustu viku að hún væri í haldi landamæravarða eftir að hafa verið numin á brott af grímuklæddum mönnum.

Þúsundir mótmælenda kröfðust þess um síðustu helgi að Kolesnikova yrði sleppt. Í yfirlýsingu frá lögmanni hennar kemur fram að henni hafi verið hótað fangelsisvist ef hún færi ekki úr landi.

„Mér var sagt að ef ég færi ekki sjálfviljug frá Hvíta-Rússlandi yrði ég flutt þaðan, lifandi eða í bútum. Það voru einnig hótanir um að fangelsa mig í allt að 25 ár,“ er haft eftir Kolesnikova í yfirlýsingunni.


Tengdar fréttir

Ko­lesni­kova sögð í haldi landa­mæra­varða

Ríkisfjölmiðlar í Hvíta-Rússlandi segja að stjórnarandstæðingurinn Maria Kolesnikova, sem var numin á brott af grímuklæddum mönnum í gær, sé nú í haldi á landamærunum að Úkraínu.

Óttast að leiðtogi mótmælenda hafi verið handtekinn

Vinir Mariu Kolesnikovu, eins leiðtoga mótmælenda í Hvíta-Rússlandi, óttast að yfirvöld hafi tekið hana höndum. Vitni segja að óþekktir menn hafi gripið hana í miðborg Minsk og ekið með hana burt í smárútu í dag.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.