Íslenski boltinn

Bryndís: Sá að hún var ekki komin í markið og lét vaða

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Bryndís Arna Níelsdóttir er komin með átta mörk í Pepsi Max-deild kvenna í sumar.
Bryndís Arna Níelsdóttir er komin með átta mörk í Pepsi Max-deild kvenna í sumar. vísir/bára

Hin sautján ára Bryndís Arna Níelsdóttir skoraði tvívegis þegar Fylkir lagði Þór/KA að velli, 4-2, í Pepsi Max-deild kvenna í dag.

„Ég er gríðarlega sátt með þennan sigur. Við unnum fyrir honum og mér fannst við vera betra liðið eiginlega allan leikinn. Þetta eru kærkomin þrjú stig,“ sagði Bryndís í samtali við Vísi í leikslok.

Þór/KA jafnaði í 2-2 á 66. mínútu með afar umdeildu marki en Fylkiskonur vildu meina að brotið hefði verið á markverðinum Cecilíu Rán Rúnarsdóttur. En Árbæingar grétu það ekki lengi og aðeins tveimur mínútum síðar kom Bryndís Fylki aftur yfir.

„Mér fannst þetta hundrað prósent brot og þetta átti ekki að vera mark. Það var frábært að skora nánast bara í næstu sókn. Það var geggjað að taka þennan sigur,“ sagði Bryndís.

Annað mark hennar og fjórða mark Fylkis kom á 77. mínútu. Bryndís nýtti sér þá slæm mistök Lauren Allen í marki Þórs/KA og vippaði boltanum skemmtilega í netið.

„Hún sparkaði eiginlega bara beint á mig, ég sá að hún var ekki komin í markið og lét vaða. Ég er mjög ánægð með að hitta markið,“ sagði Bryndís að lokum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×