Íslenski boltinn

Hólfaskipting aftur leyfð á knattspyrnuleikjum

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Víkingar fagna því að fá aftur áhorfendur á heimavöll hamingjunnar í Fossvoginum.
Víkingar fagna því að fá aftur áhorfendur á heimavöll hamingjunnar í Fossvoginum. Vísir/Bára

Breytingar hafa verið gerðar á reglum sem snúa að framkvæmd knattspyrnuleikja og er nú heimilt að skipta leikvangi í hólf.

Þetta kemur fram á vef Knattspyrnusambands Íslands, KSÍ, í dag. 

Skilyrðin sem hafa verið settu eru þau að eins metra reglan gildi milli einstaklinga sem ekki eru í nánum tengslum og að ekki séu nema 200 manns að hámarki í hverju rými eða hólfi. Sem fyrr eiga ákvæði um fjölda- og nálægðartakmarkanir eingöngu við um fullorðna, börn fædd 2005 eða síðar falla ekki í þann flokk.

Nýjar breytingar taka gildi þann 7. september næstkomandi.

Af vef ÍSÍ (birt 4. september)

Ný auglýsing um takmörkun á samkomum vegna farsóttar tekur gildi 7. september n.k. Auglýsingin gildir til 27. september kl. 23:59. Markmið breytinganna sem nú taka gildi er eftir sem áður að hægja eins og unnt er á útbreiðslu COVID-19. Sérsamböndum ÍSÍ ber að setja reglur um æfingar og keppni í sinni grein, með samþykki sóttvarnaryfirvalda, þar sem skilgreint er hvernig iðkun íþróttarinnar geti farið fram með þeim takmörkunum sem gilda.

Með nýrri auglýsingu er ekki breyting á ákvæðum er eiga við skilyrði fyrir æfingum og keppni. Þegar auglýsingin tekur gildi breytast fjarlægðarviðmið og verða þau nú 1 metri í stað 2 metra reglu sem áður var í gildi. Við iðkun íþrótta er það eingöngu á æfinga/keppnissvæði sem undanþága er veitt fyrir nálægðartakmörkunum. Líkt og í síðustu reglum er heimild fyrir áhorfendum á íþróttaviðburðum með ákveðnum skilyrðum. Skilyrðin eru nú að 1 metra reglan gildi milli einstaklinga sem ekki eru í nánum tengslum og að ekki séu nema 200 manns að hámarki í hverju rými. Rými þurfa að vera algjörlega aðskilin með a.m.k. 2 metra háu skilrúmi eða 2 metra bili sem ekki er hægt að fara yfir. Hvert skilgreint rými þarf að hafa eigin inngang og útgang og enginn samgangur er heimilaður á milli rýma. Miðasala, salerni, veitingasala og önnur þjónusta sem í boði er skal vera aðskilin fyrir hvert rými fyrir sig.

Sem fyrr eiga ákvæði um fjölda- og nálægðartakmarkanir eingöngu við um fullorðna, þ.e.a.s. þau eiga ekki við um börn fædd árið 2005 og síðar.

Eins og fram kemur í auglýsingu ráðherra er rík áhersla lögð á einstaklingsbundnar sóttvarnir og almennar smitvarnir með tíðum og reglubundnum þrifum þar sem fólk kemur saman.

ÍSÍ hvetur íþróttahreyfinguna til að fara að fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda og að viðhafa allar nauðsynlegar sóttvarnir. Verum ábyrg!
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.