Um­fjöllun og við­töl: Valur 4-0 ÍBV | Sann­færandi hjá Ís­lands­meisturunum

Víkingur Goði Sigurðarson skrifar
Valskonur eru á toppi Pepsi Max-deildarinnar.
Valskonur eru á toppi Pepsi Max-deildarinnar. VÍSIR/VILHELM

Valur vann í dag stórsigur á ÍBV í Pepsi Max deild kvenna þegar Eyjakonur komu í heimsókn á Hlíðarenda. Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir kom Val snemma í leiknum og eftir það voru Eyjakonur aldrei líklegar til að jafna leikinn. Þrír markahæstu leikmenn ÍBV fóru útaf í hálfleik í stöðunni 3-0 og seinni hálfleikurinn var í rólegri kantinum mætti segja.

ÍBV átti fyrsta færi leiksins eftir einungis 15 sekúndur. Þá komst Miyah Watford inn fyrir vörn Vals en þurfti að skjóta úr þröngu færi. Eftir það áttu ÍBV ekki skot í átt að marki Vals. Valur var að pressa vel í byrjun og voru fljótar að fara í að sparka hátt og langt en Valskonur voru fljótar að vinna boltann tilbaka sama hvar hann var.

Föst leikatriði voru akkílesarhæll í varnarleiknum hjá ÍBV í dag en Valur skoraði strax úr fyrstu hornspyrnu leiksins. Hallbera Guðný Gísladóttir kom með góða hornspynu sem skrúfaði í átt að marki ÍBV. Markmaður ÍBV kýldi boltann í burtu en alls ekki nógu langt þar sem Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir endaði á að geta bara potað honum inn.

Valur áttu nokkur dauðafæri úr opnum leik í fyrri hálfleik en þær settu boltann aldrei í markið sjálfar úr opnum leik í dag. Þegar tæplega hálftími af leiknum var búinn skoraði Eliza Spruntule óheppilegt sjálfsmark eftir fyrirgjöf frá Hlín Eiríksdóttur. Valur hélt áfram að sækja af mikilli ákefð út fyrri hálfleikinn en Gunnhildur Yrsa átti meðal annars skot í slánna. Gunnhildur Yrsa bætti við sínu öðru marki á 39. mínútu. Aftur var það eftir hornspyrnu frá Hallberu en nú hafði boltinn dottið út á Hlín sem gaf síðan fyrirgjöf sem Gunnhildur gat skorað úr.

Arna Eiríksdóttir skoraði eina mark seinni hálfleiksins í uppbótartíma. Aftur kom það eftir hornspyrnu en nú var það frá Dóru Maríu Lárusdóttur. Valur stýrðu seinni hálfleiknum alveg en voru þó ekki að skapa sér mikið af dauðafærum úr opnum leik. Það voru kannski helstu nokkur skot frá Dóru Maríu við teig ÍBV sem fóru öll yfir.

Af hverju vann Valur?

Valur stýrði leiknum bara alveg. Þær hleyptu engum færum á sig og náðu að skora þessi 4 mörk sín án þess að þurfa almennilega að leggja á sig.

Hverjar stóðu upp úr?

Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir var besti maður vallarins. Hún skoraði tvö mörk sem var frábært en hún gerði líka svo mikið meira fyrir liðið en nokkur annar leikmaður. Gæðin í sendingunum hjá henni og vinnslan varnarlega eru bara til fyrirmyndar. Hlín var mjög hættuleg á hægri kantinum í dag og hefði getað lagt upp fleiri mörk. Hallbera var með frábærar sendingar í dag, sérstaklega í hornspyrnunum.

Hvað gekk illa?

ÍBV gekk skelfilega að verjast föstum leikatriðum. Þær fengu á sig þessi þrjú mörk úr hornspyrnum og þau höfðu getað verið fleiri. ÍBV gekk líka ansi illa að búa sér til færi en ég man bara eftir þessu eina skoti hjá þeim í leiknum sem var í fyrstu sókn leiksins.

Hvað gerist næst?

ÍBV fer í Vesturbæinn á miðvikudaginn í leik þar sem þær geta endanlega kvatt fallbaráttuna. Valur fer aðra ferð á Selfoss og reynir að hefna fyrir tapið í bikarnum í síðustu viku.

Eiður Ben þjálfar Val ásamt Pétri Péturssyni.Vísir/Facebook-síða Vals

Eiður: Klaufar að skora ekki fleiri mörk

„Nei við héldum boltanum þó vel. En vorum klaufar að skora ekki fleiri mörk, það er alveg rétt,” sagði Eiður Ben Eiríksson þjálfari Vals eftir leik aðspurður hvort hann hefði ekki viljað sjá meira frá sínu liði í seinni hálfleik.

Valur var að skapa sér lítið af hættulegum færum úr opnum leik í seinni hálfleik, sérstaklega þegar spáð er í gæðamuninum á þessum tveimur liðum.

„Það má alveg vel vera en mér fannst við eiga fína sénsa. Dóra átti held ég þrjú skot sem hefðu mátt sleppa því að fara yfir. En já það vantaði aðeins uppá í seinni hálfleik en leikurinn var búinn í hálfleik.”

Valur skoraði 3 mörk úr hornspyrnum og hefðu getað skorað fleiri. Hallbera Guðný Gísladóttir var að taka þessar hornspyrnur og hún gerði það meistaralega.

„Hallbera er frábær leikmaður og gefur okkur mikið. Við erum alltaf hættulegar í þessum föstu leikatriðum svo það er ótrúlega gott að eiga leikmann eins og Hallberu.”

Valur datt út úr bikarnum í vikunni en þær töpuðu 1-0 á móti Selfossi. Eiður vildi ekki meina að einhver pirringur hafi setið í liðinu sem leiddi til þess að stelpurnar hafi verið mótíveraðari í þennan leik.

„Sá leikur hafði ekkert áhrif á þennan leik þannig lagað. Við vissum að við höfðum spilað vel á móti Selfossi og gerðum nóg til þess að vinna leikinn en lukkudísirnar voru ekki alveg með okkur í þeim leik. En það var gott að skora fjögur mörk í dag eftir að við höfðum átt að skora fullt af mörkum á Selfossi. Það er auðvitað svekkjandi en þetta er bara allt önnur keppni og við þurfum bara þrjú stig í hverjum einasta leik. Við erum að elta Blikana, við vitum það og við erum bara að safna stigum.”

„Ég get svo sem alveg skilið það í svona prógrammi. Það eru tveir dagar á milli leikja núna. Væntanlega hefur þjálfari ÍBV metið það svo að þessi leikur væri búinn og hann hefur verið að horfa meira í næsta leik og að halda þeim leikmönnum ferskum,” sagði Eiður aðspuður um skiptingarnar hjá ÍBV í hálfleik.

Andri Ólafsson var á sínum tíma fyrirliði karlaliðs ÍBV en þjálfar nú kvennalið félagsins.Mynd/Daníel

Andri: Þetta gengur ekki svona

„Frammistaðan var svolítið svekkjandi. Þetta var svo sem aldrei leikur þannig að tapið var svo sem ekkert svekkjandi. Þær voru bara miklu ákveðnari og betri í dag,” sagði Andri Ólafsson þjálfari ÍBV eftir leik.

ÍBV tóku þrjá af sínum bestu leikmönnum útaf í hálfleik. Miyah Watford, Fatma Kara og Olga Secova fóru allar útaf en staðan í hálfleik var 3-0. Það mætti líta þannig á það að ÍBV hafi gefist upp í hálfleik en þessir þrír leikmenn eru búnir að skora 8 af 13 mörkum ÍBV í deildinni í sumar. ÍBV á leik eftir 3 daga svo það er þó skiljanlegt ef það var sett smá áhersla á hvíldina.

„Við töpuðum seinni hálfleiknum 1-0 en fyrri hálfleiknum 3-0. Það var kannski einhver framför. En já við erum vissulega aðeins að pæla í framhaldinu.”

ÍBV fengu á sig þrjú mörk og enn fleiri færi eftir hornspyrnur í dag. Þær náðu aldrei að ráðast almennilega á fyrsta boltann og ef þær náðu honum tóku Valur aftur frákastið.

„Það er rétt hjá þér þetta gengur ekki svona, ” sagði Andri og hló léttilega af orðavali blaðamannsins. „En það gerir það ekki. Heldur ekki þegar annar boltinn dettur niður. Við eigum að vera ákveðnari. Auðvitað getur þú fengið mark á þig úr horni og allt það en þetta var alltof létt eins og þú ert að koma að.”

Auður Sveinbjörnsdóttir Scheving sem er aðalmarkmaður ÍBV má ekki spila á móti Val þar sem hún er á láni frá þeim. Guðný Geirsdóttir kom í rammann í staðinn fyrir hana.

„Nei, hún Guðný stendur sig bara vel. Hún er búin að spila þrjá leiki á móti Val og standa sig vel. Það eru aldeilis skotin sem við vorum að fá á okkur bæði í fyrri og seinni hálfleik. Það var nóg að gera hjá henni.”

„Það er bara gaman. Geggjað að spila marga leiki og hafa stutt á milli leikja. Fínt að geta bætt fyrir þessa frammistöðu á miðvikudaginn í Vesturbænum,” sagði Andri aðspurður um næsta leik ÍBV sem er á móti KR.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira