Erlent

Efast um að bóluefni verði tilbúið í október

Kjartan Kjartansson skrifar
Anthony Fauci telur ekki líklegt að bóluefni verði tilbúið í næsta mánuði, rétt fyrir kosningar í Bandaríkjunum, jafnvel þó að það sé hugsanlegt.
Anthony Fauci telur ekki líklegt að bóluefni verði tilbúið í næsta mánuði, rétt fyrir kosningar í Bandaríkjunum, jafnvel þó að það sé hugsanlegt. Vísir/EPA

Helsti sóttvarnasérfræðingur Bandaríkjastjórnar telur ekki líklegt að bóluefni gegn nýju afbrigði kórónuveiru verði tilbúið í október, jafnvel þó að það sé „hugsanlegt“. Hvíta húsið segir að enginn þrýstingur sé á heilbrigðisyfirvöld að votta bóluefni fyrir kosningar sem fara fram í nóvember.

Lýðheilsusérfræðingar lýstu áhyggjum af því í gær að pólitískur þrýstingur gæti verið á að votta bóluefni gegn kórónuveirunni fyrir forseta- og þingkosningar sem fara fram í byrjun nóvember í kjölfar frétta af því að Sóttvarnastofnun Bandaríkjanna (CDC) hefði sent heilbrigðisyfirvöldum í öllum ríkjum og landsvæðum Bandaríkjanna leiðbeiningar um að þau skyldu búa sig undir að byrja að dreifa bóluefni gegn kórónuveirunni þegar í næsta mánuði.

Anthony Fauci, helsti sóttvarnasérfræðingur Bandaríkjastjórnar, sagðist í viðtali við CNN-sjónvarpsstöðina í dag telja það „hugsanlegt“ að bóluefni gæti verið til í október en það væri þó ekki líklegt.

„Þetta eru allt ágiskanir,“ sagði Fauci sem telur sjálfur líklegra að bóluefni gæti komið fram í nóvember eða desember.

Kayleigh McEnany, blaðafulltrúi Hvíta hússins, hafnaði því í dag að lyfjayfirvöld lægju undir þrýstingi um að gefa bóluefni grænt ljós í flýti.

„Enginn er að þrýsta á Lyfja- og matvælastofnunina um neitt,“ fullyrti McEnany.

Talið er að bóluefnin sem CDC undirbýr að hefja dreifingu á séu þau sem Pfizer og Moderna þróa. Forstjóri Pfizer segir að niðurstöður um hvort að bóluefni þess virki eigi eftir að fást fyrir lok október.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×