Erlent

Lögregla sneri aftur að heimili Hagen-hjónanna

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Frá heimili Hagen-hjónanna skömmu eftir að hann var handtekinn í lok apríl. Lögregla hefur haft mikla viðveru í húsinu síðan þá.
Frá heimili Hagen-hjónanna skömmu eftir að hann var handtekinn í lok apríl. Lögregla hefur haft mikla viðveru í húsinu síðan þá. Vísir/EPA

Lögregla í Noregi hélt áfram rannsókn á heimili hjónanna Tom og Anne-Elisabeth Hagen í Lørenskog í morgun. Lögregla hefur ekki viljað tjá sig um það hvað verið að rannsaka á heimilinu nú en um mánuður er síðan lögreglumenn voru síðast í húsinu.

Lögregla telur að hús hjónanna við Sloraveien sé vettvangur morðsins á Anne-Elisabeth en ekkert hefur spurst til hennar síðan 31. október 2018. Tom Hagen er grunaður um að hafa banað henni eða átt aðild að andláti hennar. Hann hefur verið laus úr haldi síðan í maí og neitar sök.

Lögregla hefur haft mikla viðveru á heimilinu síðan Anne-Elisabeth hvarf, einkum strax eftir að Tom var handtekinn í lok apríl. Lögregla óskaði síðast eftir því í ágúst að fá að hafa húsið til umráða í þrjá mánuði. Dómari úrskurðaði hins vegar að lögregla mætti aðeins hafa húsið í mánuð, eða fram til 21. september næstkomandi. Ekki hefur sést til lögreglu við húsið eftir að beiðnin var lögð fram fyrr en nú.

Rannsóknarlögreglumenn voru mættir að húsinu snemma í morgun en yfirgáfu svæðið um klukkan hálf tvö síðdegis að norskum tíma. Ekkert hefur fengist gefið upp um ástæður rannsóknarinnar nú og vísar lögregla til rannsóknarhagsmuna í samtali við norska ríkissjónvarpið, NRK.

Anne-Elisabeth var heima hjá sér að Sloraveien þegar hún var numin á brott eða myrt, ef marka má þau gögn sem fram hafa komið í málinu. Þannig var hún í húsinu þegar hún ræddi við son sinn í síma að morgni 31. október 2018. Enginn hefur séð eða heyrt Anne-Elisabeth á lífi síðan.

Húsið hefur verið skráð alfarið á nafn Toms Hagen síðan á tíunda áratug síðustu aldar. Tom lýsti því í yfirheyrslu hjá lögreglu að hann hefði orðið hræddur um að honum yrði úthýst af heimilinu á sínum tíma og því fengið kaupmála þeirra hjóna breytt á umræddan hátt.


Tengdar fréttir

Leita nýs vitnis í Hagen-málinu

Lögregla í Noregi vill nú ná tali af manni sem sást á upptökum öryggismyndavéla í Lørenskógi þann 31. október 2018, daginn sem Anne-Elisabeth Hagen hvarf.

Varð hræddur og skráði húsið á sig

Norski auðkýfingurinn Tom Hagen kveðst hafa orðið hræddur um að honum yrði úthýst af heimili sínu og eiginkonu sinnar, Anne-Elisabeth Hagen, á tíunda áratug síðustu aldar.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.