Erlent

Leita nýs vitnis í Hagen-málinu

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Skjáskot úr upptöku öryggismyndavélar í Lørenskógi. Dreginn er ljós hringur utan um manninn sem leitað er að.
Skjáskot úr upptöku öryggismyndavélar í Lørenskógi. Dreginn er ljós hringur utan um manninn sem leitað er að.

Lögregla í Noregi vill nú ná tali af manni sem sást á upptökum öryggismyndavéla í Lørenskógi þann 31. október 2018, daginn sem Anne-Elisabeth Hagen hvarf. Maðurinn er nýtt vitni í málinu en lögreglu hefur ekki tekist að bera kennsl á hann.

Mikil vinna hefur verið lögð í að setja saman upptökur úr ótal öryggismyndavélum til að kortleggja ferð mannsins umræddan dag. Lítið hefur fengist gefið upp um manninn, fyrir utan það að hann hafi stöðu vitnis og hafi verið á gangi í grennd við heimili Anne-Elisabeth og eiginmanns hennar, Toms Hagens, á mikilvægum tímapunkti.

Hann er ekki grunaður um aðild að málinu. Þá hefur lögregla ekki áhuga á að ræða við aðrar manneskjur sem verða á vegi mannsins á upptökunum.

Lögreglu hefur borist fjöldi ábendinga eftir að upptökurnar voru birtar í dag. Lögregla vill hins vegar ekki tjá sig um efni ábendinganna að svo stöddu, að því er fram kemur í uppfærðri frétt norska ríkisútvarpsins nú í kvöld. 

Þar er einnig haft eftir lögreglu að hún hafi komist yfir um sex þúsund klukkutímar af upptökum úr öryggismyndavélum, sem fara þurfi yfir við rannsókn málsins. Þá hefur lögregla áður lýst eftir vitnum sem sést hafa á upptökum í grennd við heimili hjónanna í Lørenskógi og skrifstofu Toms Hagen.

Tom Hagen var handtekinn í lok apríl grunaður um að hafa orðið eiginkonu sinni að bana eða átt aðild að dauða hennar. Honum var sleppt úr haldi í maí og neitar sök.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.