Íslenski boltinn

Víkingur Ó. náði í stig í Safa­mýri | Víkingur R. kom til baka gegn Gróttu

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Gonzalo Zamorano skoraði mark Víkings Ólafsvíkur í kvöld.
Gonzalo Zamorano skoraði mark Víkings Ólafsvíkur í kvöld. Vísir

Víkingur Ólafsvík náði nokkuð óvæntu jafntefli gegn toppliði Fram í Safamýrinni í kvöld. Staðan var markalaus í hálfleik en Gonzalo Zamorano kom Víking yfir með marki úr vítaspyrnu í upphafi þess síðari. Voru gestirnir með 1-0 foryst allt þangað til heimamenn fengu einnig víti þegar fimm mínútur voru til leiksloka.

Alex Freyr Elísson fór á punktinn og skoraði af öryggi. Lokatölur því 1-1 og ljóst að Fram nagar sig í handarbökin yfir að ná ekki betra forskoti á toppi deildarinnar.

Fram heldur toppsæti Lengjudeildarinnar en liðið er með 28 stig að loknum 13 umferðum. Víkingur Ólafsvík nældi á sama tíma í gott stig í fallbaráttunni, liðið er með 12 stig í 9. sæti.

Þá gerðu Þróttur Reykjavík og Leiknir Fáskrúðsfjörður markalaust jafntefli í Laugardalnum. Rétt fyrir lok fyrri hálfleiks virtist sem Bergsteinn Magnússon, markvörður Leiknis, hefði misst boltann í eigið net en dómari leiksins flautaði einfaldlega til hálfleiks.

Stigið lyftir Þrótti upp fyrir Magna í töflunni en liðin eru bæði með átta stig á botni deildarinnar. Þar fyrir ofan situr Leiknir F. með 11 stig þegar 13 umferðum er lokið.

Í Lengjudeild kvenna fór einn leikur fram. Grótta fékk Víking Reykjavík í heimsókn á Seltjarnarnesið. Tinna Jónsdóttir kom Gróttu yfir eftir aðeins níu mínútur og bætti við öðru marki sínu á 27. mínútu. Heimastúlkur voru yfir allt fram að lokum fyrri hálfleiks þegar Stefanía Ásta Tryggvadóttir minnkaði muninn með marki úr vítaspyrnu.

Í síðari hálfleik var aðeins skorað eitt mark og það gerði Nadía Atladóttir í liði Víkings. Lokatölur því 2-2 og bæði lið fóru heim með aðeins eitt stig.

Grótta hefði með sigri komust upp að hlið Keflavíkur í 2. sæti deildarinnar en er eftir jafntefli kvöldsins í 4. sæti með 19 stig. Víkingur er í harðri fallbaráttu og situr í 8. sæti með níu stig.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×