Erlent

Abe hættur

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Shinzo Abe á fundi með Bandaríkjaforseta í september í fyrra. Abe hefur verið heilsuveill og talið er að hann muni segja af sér af þeim sökum í dag.
Shinzo Abe á fundi með Bandaríkjaforseta í september í fyrra. Abe hefur verið heilsuveill og talið er að hann muni segja af sér af þeim sökum í dag. AP/Evan Vucci

Uppfært klukkan 08:30

Shinzo Abe tilkynnti í dag að hann myndi hætta sem forsætisráðherra Japnas. Samflokksmenn hans munu velja eftirmanninn sem þingið þarf að samþykkja. Sá mun gegna stöðunni út kjörtímabil Abe sem lýkur í september á næsta ári.

Upprunaleg frétt að neðan

Gert er ráð fyrir því að Shinzo Abe tilkynni um afsögn sína síðar í dag. Hann hefur verið forsætisráðherra Japans frá árinu 2012, enginn hefur gegnt embættinu lengur.

Ríkisútvarp Japans segir forsætisráðherrann hafa boðað til fréttamannafundar síðar í dag þar sem gert er ráð fyrir að hann greini frá ákvörðun sinni. Ríkisútvarpið telur að heilsubrestur Abe ráði ákvörðuninni. Hann var fluttur á sjúkrahús á mánudag en vildi ekki greina frá því hvað amaði að honum.

Vitað er að Abe glímir við sáraristilbólgu, langvinnan bólgusjúkdóm í þörmum. Sjúkdómurinn varð til þess að hann sagði af sér sem forsætisráðherra eftir fyrri tímabil hans í embætti, 2006 til 2007. Abe tók svo aftur við forsætisráðherraembættinu árið 2012, en fimm höfðu þá gegnt embættinu í millitíðinni. Abe er því sagður hafa fært japönskum stjórnmálum nauðsynlegan stöðugleika á átta árum hans í embætti.

Fari svo að Abe hætti munu samflokksmenn forsætisráðherrans velja eftirmann hans. Ætla má að það verði einhver sem Abe leggur blessun sína yfir. Kauphöllin í Tókýó tók illa í orðrómin um brotthvarf Abe og hefur hlutabréfavísitalan lækkað nokkuð skarpt frá því að ríkisútvarpið birti fyrrnefnda frétt sína.


Tengdar fréttirAthugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.