Erlent

Orðinn þaul­sætnasti for­sætis­ráð­herrann í sögu Japans

Atli Ísleifsson skrifar
Shinzo Abe hefur gegnt embætti forsætisráðherra Japans frá árinu 2012. Hann hafði áður gegnt embættinu á árunum 2006 til 2007.
Shinzo Abe hefur gegnt embætti forsætisráðherra Japans frá árinu 2012. Hann hafði áður gegnt embættinu á árunum 2006 til 2007. EPA

Shinzo Abe, forsætisráðherra Japans, varð í dag þaulsetnasti forsætisráðherrann í sögu Japans, sé litið til óslitinnar tíðar í embætti.

Abe hefur nú setið 2.799 daga í röð í embætti og tók hann þar með fram úr frænda sínum, Eisaku Sato sem lét af embætti árið 1972.

Abe var fluttur á sjúkrahús í morgun, en hann vildi ekki greina frá hvað amaði að er hann ræddi stuttlega við fjölmiðla fyrir utan. Hann þakkaði þeim þó sem höfðu stutt hann, jafnvel á „erfiðustu tímum“.

Forsætisráðherrann sagðist hafa fengið niðurstöður úr fyrstu prófum í dag og að hann muni nú gangast undir frekari próf, án þess þó að tilgreina hvers eðlis þau væru.

Vitað er að Abe glímir við sáraristilbólgu, langvinnum bólgusjúkdómi í þörmum. Sjúkdómurinn varð til þess að hann sagði af sér sem forsætisráðherra eftir fyrri tímabil hans í embætti, 2006 til 2007.

Abe tók svo aftur við forsætisráðherraembættinu árið 2012, en fimm höfðu þá gegnt embættinu í millitíðinni.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×