Íslenski boltinn

Hafa fengið ábendingar um að leikmenn eigi erfitt með að fagna snertilaust

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Erfitt er að venja leikmenn af því að fagna með snertingu eins og þeir hafa alltaf gert.
Erfitt er að venja leikmenn af því að fagna með snertingu eins og þeir hafa alltaf gert. vísir/vilhelm

Knattspyrnusamband Íslands hefur ekki fengið athugasemdir frá sóttvarnaryfirvöldum vegna framkvæmdar leikja á Íslandsmótinu í fótbolta.

Til að keppni gæti hafist á ný vegna kórónuveirufaraldursins þurftu félögin í landinu að fylgja ítarlegum sóttvarnarreglum til að minnka möguleika á smiti. Lið mega t.a.m. ekki ganga saman inn á völlinn, þurfa að halda tveggja metra fjarlægð á varamannabekkjum, ekki hrækja á völlinn og þá er ekki heimilt að fagna með snertingu.

Að sögn Klöru Bjartmarz, framkvæmdastjóra KSÍ, hafa sóttvarnaryfirvöld ekki sett út á framkvæmd leikja á Íslandsmótinu.

„Við höfum ekki fengið neina samantekna skýrslu, minnisblað eða neitt formlegt erindi um slíkt,“ sagði Klara í samtali við Vísi í dag.

Þrátt fyrir að sóttvarnarreglur kveði á um að leikmenn megi ekki fagna með snertingu hefur það vissulega komið fyrir eins og sjá má dæmi um hér fyrir neðan. Það er þó erfiðara að segja það, og kannski borin von, að venja leikmenn af því að fagna innilega með samherjum sínum eins og þeir hafa alla tíð gert.

„Okkur hefur verið bent á að leikmenn eigi erfitt með að snúa þessum áratugagamla vana við,“ sagði Klara.

„Auðvitað vildum við óska þess að leikmenn myndu þetta alltaf en ég get ekki áfellst þá mikið þannig lagað. En þetta er ekki í samræmi við okkar tilmæli.“

En hefur KSÍ þurft að brýna fyrir félögunum að fylgja sóttvarnarreglum?

„Við vitum ekki annað en þetta hafi gengið nokkuð vel. Eins og alltaf fáum við ábendingar um framkvæmd leikja, hvort sem það er á þessum tímum eða öðrum, sem við komum á framfæri,“ svaraði Klara.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×