Erlent

Mesti fjöldi smita í Frakk­landi síðan í apríl

Atli Ísleifsson skrifar
Jean Castex er forsætisráðherra Frakklands.
Jean Castex er forsætisráðherra Frakklands. EPA

Alls greindust 5.429 ný kórónuveirusmit í Frakklandi síðasta sólarhringinn og hafa þau ekki verið fleiri á einum degi í landinu síðan í apríl.

Jean Castex, forsætisráðherra Frakklands, segir að veiran sé nú fjórum sinnum útbreiddari í landinu en fyrir einum mánuði og að 21 svæði í landinu sé nú flokkað sem „rautt“.

Castex segir að stjórnvöld hafi sitt að segja þegar kemur að þessari auknu útbreiðslu en að „allir verði að finna til ábyrgðar í baráttunni við faraldurinn“. Nauðsynlegt sé að grípa til aðgerða til að koma í veg fyrir „veldisvöxt“ í smitum, en að stjórnvöld muni gera allt til að koma megi í veg fyrir „lokun“ samfélagsins.

Margir óttast að útbreiðsla veirunnar muni aukast enn fremur nú þegar skólar hafa opnað á ný og atvinnulífið er komið í fullan gang eftir sumarfrí.

Ný smit hafa fyrst og fremst greinst hjá ungum einstaklingum, en innlögnum á sjúkrahús hefur fjölgað að undanförnu og eru um átta hundruð á viku.

Alls eru skráð kórónuveirutilfelli í Frakklandi nú 253 þúsund, og eru þau dauðsföll sem rakin hafa verið til Covid-19 30.544.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×