Enski boltinn

ESPN: Man. City að skoða það að kaupa Lionel Messi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lionel Messi var bæði með yfir tuttugu mörk og tuttugu stoðsendingar fyrir Barcelona í spænsku deildinni á síðustu leiktíð.
Lionel Messi var bæði með yfir tuttugu mörk og tuttugu stoðsendingar fyrir Barcelona í spænsku deildinni á síðustu leiktíð. Getty/Rafael Marchante

Manchester City er sagt vera að reikna það út hvort félagið eigi möguleika á því að kaupa Lionel Messi án þess að brjóta rekstrarreglur UEFA.

Þetta herma heimildir bandaríska íþróttamiðilsins ESPN sem slær þessu upp á heimasíðu sinni.

Forráðamenn Manchester City gera sér alveg grein fyrir því að það gæti orðið mjög flókið mál að landa leikmanni eins og sjálfum Lionel Messi. Lykilatriði er að Barcelona sé tilbúið að selja leikmanninn fyrir raunhæfa upphæð.

Messi er orðinn 33 ára gamall og hefur spilað allan sinn feril með Barcelona liðinu þar sem hann á flest met félagsins.

ESPN hafði áður sagt frá því að einhverjir í stjórn Barcelona séu tilbúnir að selja Messi ef argentínski snillingurinn heldur áfram að pressa á það að komast í burtu frá félaginu.

Framtíð Barcelona er ekki björt eins og er því liðið hefur verið á hraðri niðurleið undanfarin ár og það lítur út fyrir að Börsungar séu nú á tímamótum.

Það er kannski ekki mjög spennandi fyrir leikmann á aldri Messi að taka þátt í enduruppbyggingu á þessum tímapunkti á sínum ferli.

Messi er með samning við Barcelona út næsta tímabil og það kostar 700 milljónir evra að kaupa hann út. Það er ekkert félag að fara borga slíka upphæð fyrir hann.

Ronald Koeman tók við Barcelona liðinu á dögunum og hann hefur fundað með Lionel Messi um framtíðina.

Barcelona vann engan titil á síðasta tímabil og endaði það með 8-2 tapi á móti Bayern München í átta liða úrslitum Meistaradeildarinnar.

Lið eins og Paris Saint Germain í Frakklandi og Internazionale frá Ítalíu hafa einnig verið nefnd sem hugsanlegur áfangastaður Messi en áfram eru þó mestar líkur á því að hann verði áfram hjá Barcelona.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×