Erlent

Dæmdir svika­hrappar og peninga­þvættar kaupa evrópskan ríkis­borgara­rétt

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Forseti Kýpur, Nikos Anastasiades, hefur setið á forsetastóli frá árinu 2013 þegar kaup á ríkisborgararétti voru gerð möguleg.
Forseti Kýpur, Nikos Anastasiades, hefur setið á forsetastóli frá árinu 2013 þegar kaup á ríkisborgararétti voru gerð möguleg. EPA-EFE/CHRISTOPHE PETIT TESSON

Dæmdir svikahrappar, peningaþvættar og stjórnmálamenn sem hafa verið sakaðir um spillingu eru meðal þeirra sem sótt hafa um ríkisborgararétt á Kýpur. Tugir einstaklinga frá meira en 70 ríkjum hafa sótt um svokölluð „gyllt vegabréf“ samkvæmt rannsókn fréttastofunnar Al Jazeera.

Kýpurskjölin, eins og Al Jazeera kallar þau, sem lekið var sýna fram á meira en 1400 umsóknir um ríkisborgararétt sem yfirvöld eyríkisins samþykktu á árunum 2017 til 2019. Eyríkið er aðili að Evrópusambandinu og með því að öðlast þar ríkisborgararétt njóta þessir aðilar þeirra réttinda sem aðildin býður upp á.

Á komandi dögum hyggst Al Jazeera birta nöfn einstaklinga sem hafa fengið ríkisborgararétt hjá Kýpur, sem samkvæmt lögum landsins sjálfs, hefðu ekki átt að fá ríkisborgararétt. Til þess að geta sótt um ríkisborgararétt á Kýpur þurfa umsækjendur að fjárfesta minnst 2,15 milljónum evra, sem samsvarar um 350,6 milljónum íslenskra króna, á eyjunni og þurfa einnig að vera með hreina sakaskrá.

Umsækjendur ekki rannsakaðir af yfirvöldum á Kýpur

Umsækjendur sjá sjálfir um að sanna að þeir ættu að koma til greina, og þrátt fyrir að Kýpur haldi því fram að bakgrunnur umsækjenda sé rannsakaður, segir Al Jazeera að gögnin sem hún hefur undir höndum sanni að svo sé ekki gert í öllum tilvikum.

Evrópusambandið hefur ítrekað gagnrýnt kaup ríkisborgararéttar á Kýpur frá því að prógrammið hófst árið 2013 og hefur Evrópusambandið kallað eftir því að þessu verði hætt. Frá árinu 2013 hefur Kýpur grætt meira en 7 milljarða evra á sölu ríkisborgararétts sem hefur verið notað til að fleyta landinu áfram en hagkerfi þeirra er talið mjög veikt.

Flestir umsækjenda á árunum 2017 til 2019 voru frá Rússlandi, Kína og Úkraínu. Meðal þeirra sem hafa fengið ríkisborgararétt er úkraínski auðkýfingurinn Mykola Zlochevsky, eigandi orkurisans Burisma. Þegar hann fékk ríkisborgararétt á Kýpur árið 2017 var hann til rannsóknar vegna spillingar í heimalandi sínu.

Þá greindu saksóknarar í Úkraínu frá því í júní á þessu ári að þeim hafi verið lofaðar 6 milljónir Bandaríkjadala , eða um 831 milljón íslenskra króna, gegn því að loka málinu. Zlochevsky og Burisma neita þeim ásökunum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×