Erlent

Morales ákærður fyrir að nauðga ólögráða stúlku

Samúel Karl Ólason skrifar
Evo Morales er í útlegð í Argentínu.
Evo Morales er í útlegð í Argentínu. EPA/Juan Ignacio Roncoroni

Evo Morales, fyrrverandi forseti Bólivíu, hefur verið sakaður um mansal og að hafa samræði við ólögráða stúlku. Dómsmálaráðuneyti landsins hefur gefið út ákæru á hendur Morales eftir að myndir af forsetanum fyrrverandi með stúlkunni voru birtar. Guido Melgar, aðstoðardómsmálaráðherra landsins, sagði á blaðamannafundi að myndirnar hafi verið teknar af ættingja stúlkunnar, sem nú er 19 ára, þegar hún var á ferðalögum með Morales.

Samkvæmt frétt BBC var stúlkan 14 ára þegar hún byrjaði að fara í ferðalög með Morales. Melgar sagði það undarlegt því ólögráða einstaklingar þurfa leyfi frá foreldrum til að ferðast til útlanda.

Verið er að rannsaka það hvort fjölskylda stúlkunnar hafi leyft henni að ferðast með forsetanum. Ekki er vitað hvar stúlkan er núna en talið er að hún og fjölskylda hennar hafi ferðast til Argentínu, þar sem Morales býr nú.

Morales var forseti frá 2006 til 2019 og fyrsti forseti innfæddra þar í landi, en innfæddir eru um tveir þriðju þjóðarinnar. Hann er nú í útlegð í Argentínu eftir umdeildar kosningar í fyrra. Hann steig frá völdum að kröfum hersins og hægri sinnuð ríkisstjórn tók við völdum. Flokkur Morales er þó enn í meirihluta á þingi.

Nýjum forsetakosningum hefur þó verið frestað þrívegis, nú síðast í júlí og þá vegna faraldurs nýju kórónuveirunnar.


Tengdar fréttir

Mor­a­les kynnti eftir­mann sinn

Fyrrverandi forseti Bólivíu hefur sagt að Luis Arce, fyrrverandi efnahagsmálaráðherra landsins, verði einn af frambjóðendunum í forsetakosningunum sem fram fara í landinu í maí.

Morales biðlar til Sameinuðu þjóðanna

Evo Morales kallar eftir því að Sameinuðu þjóðirnar og kaþólska kirkjan miðli málum í Bólivíu eftir að her landsins knúði hann til þess að segja af sér sem forseti um síðustu helgi.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×