Erlent

Ætla sér að sökkva strönduðu flutninga­skipi við Máritíus

Atli Ísleifsson skrifar
Frá strandstaðnum undan ströndum Máritíus.
Frá strandstaðnum undan ströndum Máritíus. AP

Björgunaraðilar á Máritíus hafa hafið vinnu við að sökkva hluta flutningaskips sem standaði innan lögsögu ríkisins í júlí síðastliðinn og olli þar miklum umhverfisspjöllum vegna olíuleka.

Vinna hófst við það í gær að draga fremri og stærri hluta skipsins lengra út á haf, en skipið brotnaði í tvennt nokkrum vikum eftir strandið. Er ætlunin að sökkva skipinu niður á um þrjú þúsund metra dýpi, um fimmtán kílómetrum frá strandstaðnum.

Áætlað er að um þúsund tonn af olíu hafi lekið út úr japanska flutningaskipinu MV Wakashio og mengað umhverfi og viðkvæmt vistkerfi kóralrifja og stranda í grennd við strandstaðinn.

Yfirvöld á Máritíus fullyrða að nú sé búið að ná allri olíu úr skipinu og að hnitin þar sem sökkva á skipinu hafi verið vandlega valinn eftir samráð fyrir sjávarlíffræðinga. 

Ákvörðunin hefur þó verið gagnrýnd af fjölda umhverfisverndarsamtaka. „Að sökkva skipinu hefur í för með sér mikla áhættu fyrir líffræðilegan fjölbreytileika og mengar hafið af miklu magni þungmálma,“ segir í yfirlýsingu frá Happy Khambule hjá Greenpeace.

Aftari hluti skipsins en enn að finna á standstaðnum og liggur ekki fyrir hvað verði gert við hann að svo stöddu. Skipstjóri MV Wakashio er í haldi lögreglu á Máritíus.


Tengdar fréttir

Óttast að skipið gæti brotnað í tvennt

Yfirvöld eyríkisins Máritíus segjast óttast að flak flutningaskipsins MV Wakashio gæti brotnað í tvennt en stórar og miklar sprungur hafa myndast á ytra byrði þess.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×