Erlent

Eldhafið í Kaliforníu ógnar þúsundum heimila

Samúel Karl Ólason skrifar
Á þessu ári hafa slökkviliðsmenn þurft að eiga við 6.754 gróðurelda. Á sama tíma í fyrra voru eldarnir 4.007.
Á þessu ári hafa slökkviliðsmenn þurft að eiga við 6.754 gróðurelda. Á sama tíma í fyrra voru eldarnir 4.007. AP/Noah Berger

Gróðureldar í norðurhluta Kaliforníu í Bandaríkjunum ógna þúsundum heimila. Erfitt er fyrir slökkviliðsmenn að nálgast þá vegna landslagsins, sem er bratt og þakið giljum. Auk fjölmargra stærri elda kvikna ítrekað einnig smærri eldar.

Í gærkvöldi var áætlað að 367 gróðureldar loguðu í Kaliforníu. Á þessu ári hafa slökkviliðsmenn þurft að eiga við 6.754 gróðurelda. Á sama tíma í fyrra voru eldarnir 4.007. Rúmlega 300 þúsund ekrur hafa brunnið á árinu.

Eldarnir hafa margir hverjir kviknað vegna eldinga og sterkir vindar auka dreifingu þeirra. Gífurleg hitabylgja er á svæðinu og hefur hitinn komið verulega niður á slökkviliðsmönnum.

Gavin Newsom, ríkisstjóri Kaliforníu, lýsti í gær yfir neyðarástandi vegna eldanna. Hann sagði þá að á undanförnum þremur sólarhringum hafi eldingar slegið niður til jarðar um ellefu þúsund sinnum.

Samkvæmt frétt AP fréttaveitunnar dó einn í gærmorgun þegar þyrla sem hann notaði til að hella vatni á eldanna brotlenti. Aðrir hafa slasast og þar af einn sem hlaut alvarleg brunasár.

Miklum fjölda fólks hefur verið gert að yfirgefa heimili sín vegna eldanna og hafa mörg hús brunnið.

Skammt norður af San Francisco eru eldar sem spanna 124 ekrur. Þeir hafa brennt rúmlega hundrað byggingar og ógna 25 þúsundum til viðbótar. LA Times segir það eldhaf það stærsta á svæðinu og það hafi dreift verulega hratt úr sér.

Þar segir einnig að slökkviliðsmenn Kaliforníu séu að þrotum komnir vegna fjölda elda og stærða þeirra.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×