Erlent

Rannsaka helsta keppinaut Netanjahú rétt fyrir kosningar

Kjartan Kjartansson skrifar
Ekki liggur fyrir hvort að Benny Gantz liggi sjálfur undir grun í málinu sem saksóknarar rannsaka nú.
Ekki liggur fyrir hvort að Benny Gantz liggi sjálfur undir grun í málinu sem saksóknarar rannsaka nú. AP/Sebastian Scheiner

Saksóknarar í Ísrael tilkynntu í dag að þeir ætluðu að hefja sakamálarannsókn á sprotafyrirtæki sem Benny Gantz, helsti keppinautur Benjamíns Netanjahú forsætisráðherra, stofnaði. Þeir vilja ekki segja hvort að Gantz sé sjálfur til rannsóknar. Innan við tvær vikur eru þar til þingkosningar fara fram í landinu en Netanjahú stendur sjálfur frammi fyrir réttarhöldum vegna spillingarmáls.

Blái og hvíti flokkur Gantz hefur stillt sér upp sem heiðarlegum flokki gegn spillingu Netanjahú og flokks hans. Tilkynning saksóknaranna þykir líkleg til að hrista upp í kosningabaráttunni sem hefur verið heiftúðug, að sögn AP-fréttastofunnar.

Málið varðar Fimmtu víddina, tölvuöryggisfyrirtæki sem Gantz stofnaði eftir að hann lét af störfum hjá ísraelska hernum. Fjármálastjóri ríkisstjórnarinnar telur að lögreglan gæti hafa brotið lög um opinber innkaup þegar hún veitti fyrirtækinu milljóna dollara samning án útboðs. Fyrirtækið varð síðar gjaldþrota.

Gantz hefur ekki tjáð sig um tilkynningu saksóknaranna en sagði fyrr í dag að hann hefði enga glæpi framið. Gaf hann í skyn að möguleg rannsókn á honum væri tilkomin vegna pólitísks þrýstings.

Kosningarnar sem fara fram 2. mars eru þær þriðju á innan við ári þar sem enginn flokkur hefur fengið afgerandi umboð til myndunar ríkisstjórnar. Skoðanakannanir benda til þess að úrslitin að þessu sinni verði keimlík og að litlu muni á flokkum Gantz og Netanjahú.

Réttarhöld yfir Netanjahú eiga að hefjast í næsta mánuði. Hann er sakaður um mútuþægni, trúnaðarbrot og fjársvik. Hann hefur neitað allri sök og sakað dómskerfið, lögreglan og fjölmiðla um að vinna gegn sér.

Óljóst er hvort að málið sem tengist Gantz eigi eftir að hafa áhrif á kjósendur. Lítil hreyfing hefur orðið á stuðningi við flokkana þrátt fyrir stór mál eins og spillingarmál forsætisráðherrans og friðaráætlun fyrir Ísrael og Palestínu sem Bandaríkjastjórn lagði fram á dögunum.


Tengdar fréttir

Réttarhöldin yfir Netanjahú hefjast 17. mars

Réttarhöldin yfir Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísraels, hefjast 17. mars, tveimur vikum eftir þingkosningarnar í landinu. Ríkissaksóknari Ísraels ákærði forsætisráherrann formlega 28. janúar fyrir mútur, fjár- og umboðssvik. Réttarhöldin gætu staðið yfir í marga mánuði og jafnvel ár en honum ber engin skylda til að segja af sér í millitíðinni.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.