Erlent

Gantz tókst ekki að mynda nýja stjórn í Ísrael

Atli Ísleifsson skrifar
Benny Gantz, fékk 28 daga til að mynda stjórn. Það tókst ekki.
Benny Gantz, fékk 28 daga til að mynda stjórn. Það tókst ekki. Getty

Benny Gantz, leiðtogi ísraelsku stjórnarandstöðunnar, hefur tilkynnt Ísraelsforseta að honum hafi ekki tekist að mynda nýja ríkisstjórn. Eru nú góðar líkur að boða þurfi til enn einna þingkosninganna í landinu, þeim þriðju síðan í apríl síðastliðinn.

Reuven Rivlin Ísraelsforseti veitti Gantz, sem er fyrrverandi hershöfðingi, umboð til stjórnarmyndunar fyrir tæpum mánuði eftir að Benjamín Netanjahú hafði mistekist að mynda nýja stjórn.

Frestur Gantz rann út á miðnætti en nokkrum klukkustundum áður tilkynnti Gantz að viðræður hafi ekki borið árangur. „Ég var stöðvaður af vegg þrjóskra tapara, sem komu í veg fyrir myndun ríkisstjórnar undir minni forystu og mínum flokki, sem vann kosningarnar, þannig að landið geti hafið vegferð að pólitískum stöðugleika á ný,“ sagði Gantz.

Tilkynning Gantz kom ekki á óvart þar sem þjóðernisflokkurinn Yisrael Beitenu hafði áður tilkynnt að hann myndi hvorki styðja ríkisstjórn undir forystu Netanjahú né Gantz.

Þingkosningar fóru fram í Ísrael þann 17. september síðastliðinn. Eftir kosningarnar tilkynnti bæði Gantz og Netanjahú að þeir vildu mynda breiða samsteypustjórn. Hvorugum þeirra hefur þó tekist ætlunarverkið. Þeir funduðu tveir fyrir um þremur vikum en þær viðræður hafa engum árangri skilað.

Haaretz segir frá því að þetta sé í fyrsta sinn í sögu Ísraels þar sem ekki hafi tekist að mynda stjórn eftir að tveir hafa fengið umboð til stjórnarmyndunar.


Tengdar fréttir

Netanjahú styrkti stöðu sína innan Líkúd

Miðstjórnarmenn ísraelska stjórnmálaflokksins Líkúd greiddu í dag atkvæði um tillögu sem tryggði stöðu forsætisráðherra Ísraels, Benjamín Netanjahú, innan flokksins.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.