Enski boltinn

Sol Campbell fékk Patrik að láni í neyð

Sindri Sverrisson skrifar
Patrik Sigurður Gunnarsson er leikmaður Brentford.
Patrik Sigurður Gunnarsson er leikmaður Brentford. Getty/Ker Robertson

Markvörðurinn Patrik Gunnarsson, sem valinn var í síðasta verkefni íslenska A-landsliðsins, hefur verið lánaður til enska C-deildarfélagsins Southend United í aðeins sjö daga.

Patrik er leikmaður Brentford en þessi 19 ára markvörður fer að láni til Southend, sem leikur undir stjórn gamla Arsenal- og Tottenham-mannsins Sol Campbell. Eyjamaðurinn Hermann Hreiðarsson er aðstoðarstjóri liðsins. Southend er í klípu eftir að félagið seldi Nathan Bishop til Manchester United og þeir Harry Seaden og Mark Oxley meiddust báðir. Því var eini tiltæki markvörður liðsins, fyrir heimaleik við Burton Albion á laugardag, hinn 18 ára gamli Callum Taylor.

Patrik hefur verið leikmaður Brentford frá árinu 2018 og leikið fyrir B-lið félagsins. Hann lék sinn fyrsta aðalliðsleik þegar hann kom inn á sem varamaður á 75. mínútu í leik við Middlesbrough í ensku B-deildinni í mars fyrir tæpu ári. Í sumar skrifaði Patrik undir nýjan samning til fjögurra ára við Brentford.

Patrik var valinn í íslenska landsliðshópinn sem hélt til Bandaríkjanna í janúar en kom ekkert við sögu í leikjunum tveimur sem liðið spilaði. Þessi uppaldi Bliki á að baki 21 leik fyrir yngri landslið Íslands.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×