Fótbolti

Fór í fjallgöngu með Håland og fannst hann bara ágætis leikmaður

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Patrik Gunnarsson og Erling Braut Håland.
Patrik Gunnarsson og Erling Braut Håland. Samsett/Bára og Getty

Íslenski unglingalandsliðsmarkvörðurinn Patrik Gunnarsson hafði sögu að segja af sér og verðandi súperstjörnu fótboltans, Norðmanninum, Erling Braut Håland, eftir frammistöðuna gegn PSG í gær.

Patrik Gunnarsson er nú markvörður enska b-deildarliðsins Brentford en fyrir rúmum þremur árum þá var hann leikmaður Breiðabliks sem fór á reynslu til Noregs.

Patrik segir frá því á Twitter-síðu sinni þegar hann og Erling Braut Håland voru til reynslu hjá norska félaginu Molde.

„Við Håland vorum saman á reynslu hjá Molde fyrir rúmum 3 árum, fórum meðal annars í fjallgöngu saman og fannst hann bara ágætis leikmaður en í dag pakkaði hann PSG saman...magnað,“ skrifaði Patrik.

Patrik og Erling eru báðir fæddir árið 2000, Erling í júlí en Patrik í nóvember.

Erling Braut Håland fékk samning hjá Molde og þaðan fór hann til austurríska félagsins Red Bull Salzburg.

Håland var síðan búinn að skora 29 mörk í 27 leikjum með Red Bull Salzburg þegar hann var seldur til Borussia Dortmund í síðasta mánuði.

Patrik Gunnarsson bíður eftir tækifærinu hjá aðalliði Brentford en hann hefur þegar spilað 21 leik með yngri landsliðum Íslands.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.