Erlent

Rússar neita því að þeir kenni Banda­ríkjunum um Co­vid-19 á sam­fé­lags­miðlum

Eiður Þór Árnason skrifar
Veiran hefur haft áhrif víða um heim. Hér sést vinnufólk úða sótthreinsiefni undir berum himni í Suður-Kóreu.
Veiran hefur haft áhrif víða um heim. Hér sést vinnufólk úða sótthreinsiefni undir berum himni í Suður-Kóreu. Vísir/AP

Bandarísk yfirvöld fullyrða að samfélagsmiðlareikningar tengdir rússneskum stjórnvöldum hafi undanfarið deilt færslum þar sem Bandaríkjamenn eru sakaðir um að hafa komið faraldrinum af stað.

Rússnesk stjórnvöld þverneita fyrir að standa á bak við dreifingu ósanninda um Covid-19 veiruna á samfélagsmiðlum.

Þúsundir notenda á miðlunum Twitter, Facebook og Instagram hafa að sögn Bandaríkjamanna dreift villandi eða röngum upplýsingunum um veiruna.

Rússneska utanríkisráðuneytið brást við ásökununum í gær. Maria Zakharova, talskona ráðuneytisins, segir þær ósannar og það að yfirlögðu ráði Bandaríkjamanna.

Yfir tvö þúsund manns hafa látist vegna veirunnar, nær allir í Kína, og eru yfir 76 þúsund staðfest smit. Veiran á uppruna sinn í Wuhan í Hubei-héraði í Kína og getur valdið öndunarfærasjúkdómum.

Philip Reeker, háttsettur embættismaður hjá bandaríska utanríkisráðuneytinu, segir að rússneskir aðilar reyni meðal annars að dreifa röngum upplýsingum um uppruna veirunnar.

Meðal þeirra samsæriskenninga sem finna megi á nokkrum tungumálum sé sú að veiran sé liður í efnahagslegu stríði Bandaríkjanna og Kína.

Breska ríkisútvarpið hefur eftir AFP að Bandaríkjamenn hafi fyrst tekið eftir þessari meintu herferð Rússa um miðjan janúar, þegar þrír höfðu látið lífið af völdum veirunnar.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.