Erlent

Vanessa Bryant fer í mál við þyrlufyrirtækið

Samúel Karl Ólason skrifar
Vanessa og Kobe Bryant.
Vanessa og Kobe Bryant. Getty/Rodin Eckenroth

Vannessa Bryant, ekkja körfuboltakappans Kobe Bryant, hefur höfðað mál og fer fram á skaðabætur vegna dauða Kobe og dóttur þeirra Gianna. Lögmenn hennar lögðu fram kæru í dag gegn fyrirtækinu sem gerði út þyrluna sem brotlenti í síðasta mánuði, svo níu manns létu lífið. Kæran gengur út á að Ara Zobayan, flugmaður þyrlunnar sem dó einnig, hafi sýnt mikið skeytingarleysi í starfi sínu.

Í kærunni segir einnig að ekki hefði átt að fljúga þyrlunni af stað þar sem aðstæður hafi verið slæmar. Mikil þoka var yfir Los Angeles þennan dag og skyggni því verulega slæmt.

Þokan var svo slæm þennan dag að þyrlur lögreglu Los Angeles voru kyrrsettar en Zobayan bað um og fékk undanþágu til að fljúga af stað með farþega sína. Í kærunni segir að þyrlunni hafi verið flogið á tæplega 300 kílómetra hraða.

Samkvæmt frétt NBC News liggur ekki fyrir hve háar skaðabætur Bryant fer fram á.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×