Erlent

Kórónu­veiran komin til Dan­merkur

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Frá Hróarskeldu. Maðurinn leitaði til læknis á háskólasjúkrahúsinu í borginni þegar hann fór að finna fyrir einkennum í gærmorgun.
Frá Hróarskeldu. Maðurinn leitaði til læknis á háskólasjúkrahúsinu í borginni þegar hann fór að finna fyrir einkennum í gærmorgun. Vísir/Getty

Fyrsta tilfelli kórónuveirunnar sem valdið getur Covid-19-sjúkdómnum hefur verið staðfest í Danmörku. Maðurinn sem greindist með veiruna er starfsmaður dönsku sjónvarpsstöðvarinnar TV 2 og var nýkominn heim úr skíðaferð á Norður-Ítalíu, að því er fram kemur í dönskum fjölmiðlum.

Haft er eftir Magnus Heunicke heilbrigðisráðherra Danmerkur að málið sé tekið mjög alvarlega. Unnið sé að því að rekja ferðir mannsins og gera viðeigandi ráðstafanir vegna smitsins.

Danskir fjölmiðlar nafngreina manninn en hann heitir Jakob Tage Ramlyng og sneri heim úr skíðaferð í Langbarðalandi á Ítalíu með fjölskyldu sinni á mánudag. Hann hóf að finna fyrir einkennum Covid-19 í gærmorgun og leitaði til læknis á háskólasjúkrahúsinu í Hróarskeldu, þar sem hann var greindur með kórónuveiruna. Borgin er um þrjátíu kílómetra vestur af Kaupmannahöfn.

Maðurinn sætir nú heimasóttkví. Eiginkona hans og sonur hafa einnig verið prófuð fyrir veirunni en sýnin reyndust neikvæð, að því er fram kemur í frétt DR.

„Við erum auðvitað mjög slegin yfir því að það sem við töldum afar ólíklegt sé nú raunveruleiki okkar. […] Við erum hress, þótt við séum þreytt og þjökuð af hausverk, hálsbólgu og hósta. Það verður óraunverulegt að vera læstur inni í tvær vikur en við reynum að gera það besta úr þessu,“ skrifar Ramlyng á Facebook-síðu sinni.

Kórónuveiran er nú komin til allra ríkja Norðurlandanna nema Íslands. Fyrsta tilfelli hennar í Noregi greindist í gær en þar er um að ræða konu sem nýlega hafði dvalið í Kína. Þá greindist finnsk kona með kórónuveiru í gær eftir að hafa verið á ferðalagi um Norður-Ítalíu. Um er að ræða annað tilfellið í landinu. Þá hafa tvö tilfelli einnig greinst í Svíþjóð, hið seinna í gær. Langflestir sem greinst hafa með veiruna í Evrópu hafa smitast innan Ítalíu.


Tengdar fréttir

Íslendingar á heimleið frá Norður-Ítalíu fari í sóttkví

Sóttvarnalæknir beinir þeim tilmælum til Íslendinga á skíðum á Ítalíu og víðar, sem fara um flugvelli á Norður-Ítalíu, fari í sóttkví við komuna til Íslands. Þetta kom fram á blaðamannafundi almannavarnadeildar síðdegis í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×