Innlent

Íslendingar á heimleið frá Norður-Ítalíu fari í sóttkví

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Íslendingar gætu meðal annars verið á skíðum í Courmayeur á Norður-Ítalíu.
Íslendingar gætu meðal annars verið á skíðum í Courmayeur á Norður-Ítalíu. Unsplash/Marcus Löfvenberg

Sóttvarnalæknir beinir þeim tilmælum til Íslendinga á skíðum í fjórum héruðum Norður-Ítalíu fari í sóttkví við komuna til Íslands. Þetta kom fram á blaðamannafundi almannavarnadeildar síðdegis í dag.

Sóttvarnalæknir ræður frá ónauðsynlegum ferðum til Suður-Kóreu, Írans, Kína auk fjögurra héraða á Norður-Ítalíu. Umrædd héruð eru Lombardía, Venetó, Emilia Rómanja og Píemonte.

Fjölmargir Íslendingar fara á skíði á Ítalíu og ferðast þá um flugvellina í Mílanó og Veróna sem eru innan áhættusvæðanna. Fólk þarf hins vegar ekki að fara í sóttkví hafi það aðeins komið við á flugvöllunum á ferðalögum sínum eða keyrt í gegnum héruðin. Eingöngu er þörf á sóttkví ef dvalið er á áhættusvæði í að minnsta kosti eina nótt.

„Þessi tilmæli og aðgerðir byggja á því að fólk fari eftir þeim. Ef fólk gerir það ekki þá munu þær ekki bera árangur. Við höfum því miður ekki tök á að hafa gæslu með þessu fólki. Við treystum á almenning að hann fylgist vel með og fari eftir þeim,“ sagði Þórólfur á blaðamannafundi vegna kórónuveirunnar í dag.

Líði Íslendingum á þessum stöðum illa, finni fyrir einkennum eða annað í þá veru, þá eigi fólk að leita til heilbrigðisyfirvalda þar í landi.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.