Alls eru tíu Íslendingar í sóttkví á hótelinu Costa Adeje Palace á Tenerife en ekki sjö eins og áður var talið. Frá þessu var greint á blaðamannafundi almannavarna vegna kórónuveirunnar í dag.
Greint var frá því að sóttvarnalæknir hefði verið í sambandi við Íslendingana sjö, sex fullorðna og eitt barn, sem eru á meðal þúsund gesta og starfsfólks á hótelinu. Í dag bættust svo við þær upplýsingar að þrír Íslendingar til viðbótar væru á hótelinu.
Þráinn Vigfússon, framkvæmdastjóri Vita, sagði í samtali við Vísi í dag að sóttvarnalæknir hefði að hans mati lýst vel þeirri hættu sem til staðar sé. Ekki sé hættulegra að fara til Tenerife en hvert á land annað sem er.
„Ef fólk er hrætt við að fara til Tenerife ætti það ekki að fara neitt,“ segir Þráinn.
Vita flaug fullri vél til Tenerife í dag. 183 fóru en tólf afbókuðu flugið. Um var að ræða eldra fólk með undirliggjandi sjúkdóma sem frestaði för vegna þess. Í ferð sem fyrirhuguð er á laugardag eru engar afbókanir enn sem komið er.
Þráinn segir að aðalfararstjóri þeirra hjá Vita sé í stöðugu sambandi við hópinn og er líðan fólks góð eða eftir atvikum, í ljósi þeirrar stöðu sem uppi er að vera læst inni á hótelinu.