Erlent

Greindist með kórónu­veiru í annað sinn

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Íbúar í Osaka með grímur fyrir vitunum fyrr í mánuðinum.
Íbúar í Osaka með grímur fyrir vitunum fyrr í mánuðinum. Vísir/getty

Japönsk kona greindist í gær með kórónuveiru í annað sinn. Um er að ræða fyrsta staðfesta tilfellið af þessu tagi í Japan en fregnir hafa þó borist af sambærilegum tilfellum í Kína.

Konan er á fimmtugsaldri, býr í Osaka og hefur starfað sem leiðsögumaður hjá ferðaþjónustufyrirtæki í borginni. Hún greindist með kórónuveiru í gær eftir að hafa fengið hálsbólgu og verið með verki fyrir brjósti.

Konan greindist áður með kórónuveiru þann 29. janúar síðastliðinn. Hún var svo útskrifuð af sjúkrahúsi þremur dögum síðar og sýni sem tekin voru úr henni 6. febrúar reyndust neikvæð.

Sjá einnig: Spurt og svarað um kórónuveiruna

Japanska heilbrigðisráðuneytið staðfesti að um væri að ræða fyrsta tilfellið þar í landi þar sem sjúklingur hafi jafnað sig af veirunni, verið útskrifaður af spítala og greinst svo aftur með veiruna. Guardian greinir frá því að talið sé að slík tilfelli hafi einnig komið upp í Kína.

Haft er eftir Philip Tierno, prófessor við læknadeild New York-háskóla, í frétt Guardian að veiran geti legið einkennalaus í dvala en blossað upp aftur ef hún kemst í tæri við lungun. Þá leggur hann áherslu á að enn sé afar lítið vitað um nýju kórónuveiruna.

Fjöldi smitaðra í Japan er nú orðinn 186, auk þeirra 704 sem greindust með veiruna um borð í skemmtiferðaskipinu Diamond Princess. Stjórnvöld í höfuðborginni Tókýó hafa fyrirskipað að fjölmennum viðburðum í borginni skuli aflýst næstu tvær vikurnar til að stemma stigu við útbreiðslu veirunnar.


Tengdar fréttir

Kórónu­veiran komin til Dan­merkur

Maðurinn sem greindist með veiruna er starfsmaður dönsku sjónvarpsstöðvarinnar TV 2 og var nýkominn heim úr skíðaferð á Norður-Ítalíu.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.