Erlent

Sjávarútvegsráðherra sagði af sér vegna starfslokagreiðslu

Kristján Már Unnarsson skrifar
Geir Inge Sivertsen, 54 ára, staddur við norska sendiráðið í London, baðst lausnar í gær sem sjávarútvegsráðherra Noregs.
Geir Inge Sivertsen, 54 ára, staddur við norska sendiráðið í London, baðst lausnar í gær sem sjávarútvegsráðherra Noregs. Regjeringen.no/Nærings- og fiskeridepartementet

Sjávarútvegsráðherra Noregs, Geir Inge Sivertsen, baðst í gær lausnar frá ráðherraembætti, eftir aðeins einn mánuð í starfi. Ástæðan er sú að hann sóttist eftir og þáði starfslokagreiðslu í einn og hálfan mánuð sem fráfarandi bæjarstjóri eftir að hann var kominn á full laun hjá norska ríkinu.

Geir Inge stýrði áður sveitarfélaginu Lenvik í Troms í Norður-Noregi. Um áramót var það lagt niður og sameinað nýju sveitarfélagi. Þann 4. nóvember tók hann við starfi sem pólitískur ráðuneytisstjóri í sjávarútvegsráðuneyti Noregs. Hann varð svo óvænt sjávarútvegsráðherra fyrir Hægri flokkinn þann 24. janúar við uppstokkun í ríkisstjórninni við brotthvarf Framfaraflokksins.

Sjávarútvegsráðherrann Geir Inge í heimsókn í sjávarbyggðum Lofoten í Norður-Noregi. Hann var aðeins einn mánuð í starfi. Regjeringen.no/Nærings- og fiskeridepartementet

Sem fráfarandi bæjarstjóri fór hann fram á og fékk greidd eftirlaun sem nam einum og hálfum mánaðarlaunum, andvirði 1,6 milljóna íslenskra króna. Á sama tíma var hann kominn á launaskrá norska ríkisins með um 1,1 milljón íslenskra króna í mánaðarlaun sem ráðuneytisstjóri. Þar með var hann kominn á tvöföld laun, en norska Dagbladet fór fremst fjölmiðla í að fletta ofan af hneykslinu. 

Samkvæmt reglum norskra sveitarfélaga eiga menn ekki rétt á slíkum starfslokagreiðslum fari þeir í annað starf hjá hinu opinbera. Í slíkum tilvikum eiga þeir aðeins rétt á að fá greiddan mismuninn, sé hann einhver, á eftirlaunum og launum fyrir nýja starfið. 

Mótbárur sjávarútvegsráðherrans, um að hann hefði í raun gegnt tveimur störfum samtímis, bæjarstjórastarfinu og ráðuneytisstjórastarfinu, dugðu honum ekki, né ákvörðun hans um endurgreiðslu eftirlaunanna. Hann neyddist í gær til að ganga á fund Ernu Solberg forsætisráðherra til að biðjast lausnar.

Einn stjórnarandstöðuflokkanna, SV, Sosialistisk Venstreparti, hafði sama dag lagt fram vantrauststillögu gegn ráðherranum.


Tengdar fréttir

Sol­berg kynnti nýja ríkis­stjórn sína

Verulega er stokkað upp í ríkisstjórninni en fylla þurfti í skarð ráðherra úr röðum Framfaraflokksins eftir að flokkurinn ákvað að hverfa úr ríkisstjórn.

Norska stjórnin er sprungin

Stjórn Ernu Solberg forsætisráðherra Noregs er sprungin. Þetta varð ljóst eftir að tilkynnt var að Framfaraflokkurinn hafði ákveðið að ganga út úr stjórnarsamstarfinu.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.