Umfjöllun og viðtöl: Valur - ÍA 3-1 | Valur náði fram hefndum og fór áfram

Smári Jökull Jónsson skrifar
Lasse Petry skoraði annað mark Vals í kvöld.
Lasse Petry skoraði annað mark Vals í kvöld. VÍSIR/DANÍEL

Valsmenn eru komnir áfram í 8-liða úrslit Mjólkurbikarsins eftir 3-1 sigur á ÍA á heimavelli sínum að Hlíðarenda í kvöld. Leikurinn var fjörugur og dramatískur undir lokin.

Skagamenn gerðu sex breytingar á sínu liði fyrir leikinn í kvöld. Leikmenn eins og Tryggvi Hrafn Haraldsson og Stefán Teitur Þórðarsson byrjuðu á bekknum en í stað þeirra komu ungir leikmenn sem ekki hafa spilað mjög mikið í sumar.

Gestirnir byrjðuðu þó af krafti og pressuðu Valsmenn duglega. Heimamenn voru í smá vandræðum í upphafi en unnu sig fljótt inn í leikinn og það var samkvæmt gangi leiksins þegar Patrick Pedersen kom þeim yfir á 11.mínútu með góðum skalla.

Eftir markið bitu Skagamenn hins vegar frá sér. Þeir fengu dauðafæri seint í fyrri hálfleik og voru síst lakara liðið á vellinum gegn fullmönnuðu Valsliði.

Í síðari hálfleik var svipað á teningunum þó svo að Skagamenn vantaði herslumuninn til að skapa sér fleiri góð færi. Snemma í hálfleiknum kom þreföld skipting þar sem þeir Stefán Teitur, Tryggvi Hrafn og Steinar Þorsteinsson komu allir inná og spennandi mínútur framundan.

Þá gerði Aron Kristófer Lárusson sig hins vegar sekan um hræðilegt dómgreindarleysi. Á gulu spjaldi hreytti hann leiðindum í aðstoðardómarann sem var að flagga innkast og fékk fyrir það annað gult og þar með rautt.

Stuttu síðar komust Valsmenn síðan í 2-0 með marki frá Lasse Petry og staðan góð fyrir Valsmenn. Skagamenn komu hins vegar til baka og Steinar Þorsteinsson minnkaði muninn fyrir þá þegar rúmar fimmtán mínútur voru eftir.

Það sem eftir lifði leiks pressuðu Skagamenn og sköpuðu hættu við mark Valsmanna. Þeir vildu fá vítaspyrnu þegar boltinn fór í hönd Valgeirs Lunddal Friðrikssonar en Pétur Guðmundsson dómari dæmdi ekkert.

Í blálokin skoraði síðan varamaðurinn Einar Karl Ingvarsson þriðja mark Vals og gulltryggði sigurinn. Valsmenn mæta HK í næstu umferð.

Af hverju vann Valur?

Þeir nýttu færin sín þegar þau komu og voru þéttir til baka lengst af. Þeir voru brenndir eftir tapið gegn ÍA í deildinni og þrátt fyrir smá bras í byrjun leystu þeir pressu gestanna ágætlega.

Skagamenn voru skeinuhættir og fengu vissulega færi til að jafna metin en rauða spjald Arons Kristófers kom þeim í erfiða stöðu.

Bestu menn vallarins

Patrick Pedersen skorar yfirleitt þegar hann spilar fótbolta og hann var ekki lengi að setja mark sitt á leikinn í kvöld. Heimir þjálfari sagði að hann hefði viljað fleiri mörk frá honum en þetta taldi í dag.

Eiður Aron Sigurbjörnsson virðist vera að finna fjölina sína á ný og átti fínan leik sem og Rasmus Christiansen. Þá var Sigurður Egill Lárusson ógnandi.

Hjá Skagamönnum var Jón Gísli Eyland duglegur á miðjunni og Brynjar Snær Pálsson átti ágætan leik sömuleiðis.

Hvað gekk illa?

Eftir að Valsmenn komust yfir var eins og þeir slökuðu aðeins á. Þeir hleyptu Skagamönnum inn í leikinn í stað þess að láta kné fylgja kviði og keyra almennilega á ungt lið gestanna. Eftir annað markið hleyptu þeir síðan ÍA inn í leikinn á ný og voru ekki sannfærandi með 11 leikmenn gegn 10.

Skagamenn voru eins og áður segir skeinuhættir fram að 2-0 marki Valsmanna en vantaði herslumuninn til að skapa sér alvöru færi og gera þetta að leik. Rauða spjaldið gerði þeim stóran grikk en gremja þeirra í lokin út í Pétur dómara er vel skiljanleg því hann hefði vissulega getað flautað víti á Valsmenn.

Hvað gerist næst?

Skagamenn eru úr leik í bikarnum en Valsmenn fara áfram í 8-liða úrslit þar sem þeir mæta HK á heimavelli í september.

Í deildinni fara Skagamenn norður á Akureyri og mæta KA um helgina en Valsmenn eiga framundan stórleik við nágrannana í KR.

Heimir Guðjónsson, þjálfari Vals.mynd/stöð 2

Það greip um sig pínu kæruleysi

„Mér fannst við fínir á löngum köflum í fyrri hálfleik. Við náðum að leysa pressuna þeirra betur en við gerðum síðast á þessum velli og komumst sanngjarnt yfir,“ sagði Heimir Guðjónsson þjálfari Vals í samtali við Vísi eftir sigurinn á ÍA í kvöld en Skagamenn unnu 4-1 sigur á Valsvellinum fyrr í sumar.

„Við bættum síðan við öðru marki og eftir að við gerðum það og þeir misstu mann af velli greip um sig pínu kæruleysi, menn ætluðu að vera með einhver trix inni á vellinum og við vorum ekki að klára sóknirnar. Við hleyptum þeim í skyndisóknir og það voru einu möguleikar þeirra á að skora í dag, skyndisóknir eða föst leikatriði. En heilt yfir er ég ánægður með liðið og við erum komnir áfram. Það er bara flott.“

Patrick Pedersen var í byrjunarliðinu í dag eftir stutta fjarveru. Hann var ekki lengi að setja mark sitt á leikinn.

„Eins og menn vita er Patrick frábær framherji, mér fannst reyndar að hann hefði átt að skora fleiri mörk í þessum leik. Hann er mikilvægur hlekkur í okkar liði.“

Valsmenn eru komnir í 8-liða úrslit þar sem þeir mæta HK en framundan eru leikir í Pepsi Max-deildinni þar sem Valsmenn hafa verið á miklu skriði.

„Við eigum hörkuleik gegn KR á laugardag og það er alveg nóg fyrir okkur að byrja að einbeita okkur að því á morgun. Það verður alvöru slagur í Vesturbænum og við þurfum að undirbúa okkur vel fyrir þann leik, KR er með hörkulið,“ bætti Heimir við en sagði það ekki hafa nein áhrif á Valsmenn sú staða að óvíst er hvort leikurinn fari fram þar sem KR-liðið er að koma heim frá Skotlandi eftir Evrópuleik og gætu þurft að fara í sóttkví.

„Ef þessi leikur verður þá undirbúum við okkur fyrir hann. Ef ekki þá bara mætum við í næsta leik.“

Jóhannes Karl var ekki sáttur með Aron Kristófer Lárusson í kvöld.vísir/bára

Jóhannes Karl: Hann bregst liðinu með því sem hann segir við aðstoðardómarann

„Við byrjuðum þennan leik af miklum krafti og sköpuðum okkur ágætis stöður. Við pressuðum Valsarana hátt á vellinum og Hannes gaf okkur boltann 5-6 sinnum inni á miðjum þeirra vallarhelmingi og við náðum kannski ekki að nýta okkur það nógu vel,“ sagði Jóhannes Karl Guðjónsson þjálfari ÍA eftir tapið gegn Val í 16-liða úrslitum Mjólkurbikarsins í kvöld.

„Við fengum líka algjört dauðafæri eftir góða sókn þar sem Marteinn var óheppinn að hitta ekki boltann á fjær, hefði jafnvel getað tekið hann niður. Fyrri hálfleikurinn því að mörgu leyti mjög góður. Auðvitað var þetta mark sem Valsararnir spila frábærlega gert hjá þeim en mér fannst við að mestu leyti fínir í fyrri hálfleik,“ bætti Jóhannes Karl við. og það sama var uppi á teningunum í seinni háfleik.

Skagamenn voru afar ósáttir við Pétur Guðmundsson dómara undir lok leiksins og vildu meina að þeir hefðu átt að fá vítaspyrnu þegar boltinn fór í hönd Valgeirs Lunddal Friðrikssonar.

„Þeir skora ágætis mörk en við fáum líka færi til að jafna og að mínu mati hefðum við átt að fá víti hérna í restina. Boltinn fór bara beint í höndina á honum og dómarateymið sem var hérna, það sagðist enginn hafa séð það. Mér finnst það mjög skrýtið.“

Í stöðunni 1-0, þegar Skagamenn voru nýbúnir að skipta þríeykinu Stefáni Teiti, Tryggva Hrafni og Steinari inná af bekknum, fékk Aron Kristófer Lárusson sitt seinna gula spjald fyrir kjaftbrúk við dómarann. Jóhannes Karl var ekki sáttur með sinn leikmann.

„Hann bregst liðinu með því sem hann segir við aðstoðardómarann og fær rautt spjald og skilur okkur svolítið eftir í súpunni. En það breytir því ekki að manni færri þá spiluðum við vel, héldum boltanum vel og héldum áfram að spila okkar leik og settum pressu á Valsarana því við ætluðum okkur að jafna leikinn.“

„Við höfðum trú á að við gætum strítt þeim þó að við værum manni færri. Við erum farnir að fórna svolítið miklu hér í blárestina og þeir ná að drepa þetta með þriðja markinu.“

Í gær fengu Skagamenn til liðs við sig Guðmund Tyrfingsson frá Selfossi en hann fékk sínar fyrstu mínútur í leiknum í kvöld.

„Við erum í svakalega fínum málum með leikmannahópinn okkar. Leikmaður eins og Guðmundur Tyrfingsson passar vel inn í leikmannastefnuna okkar. Þetta er ungur leikmaður sem getur náð langt.“

„Við seldum Bjarka Stein í glugganum og töldum okkur þurfa að styrkja aðeins. Ég hef mikla trú á þessum strák og við þurftum einhvern til að fylla skarðið hans Bjarka. Guðmundur er kominn núna til að hjálpa okkur að styrkja sóknarleikinn.“

Valgeir Lunddal vildi ekki meina að um vítaspyrnu væri að ræða er boltinn fór í hönd hans undir lok leiks.Vísir/Daníel

Valgeir Lunddal: „Aldrei víti“

Valgeir Lunddal Friðriksson leikmaður Vals var vitaskuld sáttur með sigurinn gegn ÍA sem þýðir að Valsarar eru komnir áfram í 8-liða úrslit Mjólkurbikarsins.

„Það eina sem skiptir máli er að komast áfram í næstu umferð, sama hvernig maður spilar. Við vildum bara komast í 8-liða úrslitin, frábært.“

Leikurinn var lengst af í járnum og ungt lið Skagamanna velgdi heimamönnum heldur betur undir uggum.

„Þetta var 50/50 leikur eiginlega mest allan leikinn. Maður leggur allt í þennan leik og það skilaði okkur áfram.“

Undir lokin var Valgeir miðpunkturinn í umdeildu atviki þegar Skagamenn vildu meina að boltinn hefði farið í hönd Valgeirs. Hann viðurkennir það en segir Pétur Guðmundsson dómara hafa gert rétt í að dæma ekki.

„Aldrei víti.“

Fór boltinn í höndina á þér?

„Já, en þetta var aldrei víti,“ sagði Valgeir að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira