Erlent

Trump áskilur sér rétt til að skipta sér af sakamálum

Kjartan Kjartansson skrifar
Barr (t.h.) hefur sætt gagnrýni pólitískra andstæðinga fyrir að vera sérstaklega handgenginn Trump forseta. Ummæli hans í sjónvarpsviðtali þar sem hann virtist setja ofan í við forsetann komu því á óvart.
Barr (t.h.) hefur sætt gagnrýni pólitískra andstæðinga fyrir að vera sérstaklega handgenginn Trump forseta. Ummæli hans í sjónvarpsviðtali þar sem hann virtist setja ofan í við forsetann komu því á óvart. Vísir/EPA

Hvatning dómsmálaráðherra Bandaríkjanna til Donalds Trump forseta um hann hætti að tísta um dómsmálaráðuneytið virðist lítinn árangur hafa borið. Í tísti í morgun neitaði Trump því að hafa skipt sér af sakamálum en áskildi sér ótvíræðan rétt til þess.

Mikil umræða hefur farið fram vestanhafs um sjálfstæði dómsmálaráðuneytisins eftir að það tók fram fyrir hendurnar á alríkissaksóknurum um refsikröfu yfir Roger Stone, persónulegum vini og ráðgjafa Trump forseta. Það gerði ráðuneytið nokkrum klukkustundum eftir að Trump tísti um hversu ósanngjarnt málið gegn Stone væri á þriðjudag. Allir fjórir saksóknararnir sögðu sig frá málinu í kjölfarið.

Dómsmálaráðuneytið reyndi að fjarlægja sig tístum forsetans um mál Stone og fullyrti að ákvörðunin um að milda refsikröfuna í máli Stone hefði verið tekin áður en Trump tjáði sig um hana. Trump gróf fljótt undan því þegar hann tísti hamingjuóskum til William Barr, dómsmálaráðherra, fyrir að hafa „tekið við stjórn“ á málinu gegn Stone á miðvikudag.

Barr, sem tók sjálfur ákvörðun um að milda refsikröfuna í máli Stone, storkaði Trump forseta óvænt í sjónvarpsviðtali í gær. Þar hvatti hann Trump til að hætta að tísta um sakamál og að hann myndi sem ráðherra ekki láta undan þrýstingi neins, hvorki forsetans né annarra. Tístin gerðu honum ómögulegt fyrir að sinna starfi hans. Lýsti dómsmálaráðherrann því einnig að hann gæti ekki hafið rannsókn á pólitískum andstæðingum forsetans að beiðni hans.

Sjá einnig: Ráðherra segir Trump gera honum starfið ómögulegt

Hvíta húsið sendi frá sér yfirlýsingu í gær um að Trump hafi ekki fundið að ummælum Barr sem hefði rétt til að tjá sig opinberlega. Forsetinn hefur fram að þessu ekki verið þekktur fyrir að taka beinni eða dulinni gagnrýni þegjandi og hljóðalaust.

Trump virðist þó ekki hafa tekið orð Barr til sín þar sem hann tísti enn um Barr og meðferð sakamála í morgun. Eignaði hann Barr fullyrðingu um að forsetinn hefði aldrei beðið hann um að gera nokkuð með sakamál.

„Það þýðir ekki að ég hafi ekki, sem forseti, lagalegan rétt til að gera það, ég hef hann, en fram að þessu hef ég kosið að nýta hann ekki!“ tísti Trump í morgun.


Tengdar fréttir

Mun svara fyrir inngrip dómsmálaráðuneytisins

William Barr, dómsmálaráðherra Bandaríkjanna, hefur samþykkt að mæta fyrir þingnefnd og svara spurningum þingmanna vegna inngrips dómsmálaráðuneytisins í mál gegn vini og bandamanni Donalds Trump forseta í kjölfar þess að forsetinn gagnrýndi málareksturinn gegn honum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×