Erlent

Hörð átök í Úkraínu

Samúel Karl Ólason skrifar
Tveir hermenn eru sagðir hafa fallið og þrír eru særðir.
Tveir hermenn eru sagðir hafa fallið og þrír eru særðir. Vísir/Getty

Sveitir Rússa gerðu í morgun árásir á úkraínska hermenn í Donbas-héraði í Úkraínu. Það segir her Úkraínu og eru bardagar sagðir hafa staðið yfir í nokkrar klukkustundir. Tveir hermenn eru sagðir hafa fallið og þrír eru særðir.

Samkvæmt frétt BBC segja uppreisnarmenn í héraðinu, sem Rússar styðja dyggilega, að úkraínskir hermenn hafi reynt að gera árás á þá en lent á jarðsprengjusvæði. Myndbönd af vettvangi gefa þó í skyn að þær yfirlýsingar séu ósannar.

Í tilkynningum í morgun sagði úkraínski herinn að árás uppreisnarmannanna hafi byrjað á stórskotaliðsárásum á hermenn nærri bænum Zolote. Undir skjóli þeirra árása hafi hermenn reynt að nálgast varnarstöðvar úkraínska hersins.

Úkraínumenn segjast ekki hafa tapað neinu landsvæði og að uppreisnarmennirnir hafi að endingu beðið um vopnahlé. Heimildarmenn Kyiv Post segja þó úkraínska herinn hafa tapað nokkrum varnarstöðum á víglínunni.

Voldodymyr Zelensky, forseti Úkraínu, boðaði til fundar þjóðaröryggisráðs Úkraínu í morgun.

Zelensky sagði í morgun að árásin hafi verið tilraun til að skemma friðarviðræður á svæðinu. Þær hafi verið að skila árangri.

Uppreisnarmennirnir búa yfir rússneskum vopnum eins og skriðdrekum og stórskotaliði. Þá berjast rússneskir hermenn með þeim. Yfirvöld Rússlands hafa ávallt reynt að þræta fyrir að senda hermenn til Úkraínu og segja hermenn hafa farið Úkraínu og stutt uppreisnarmennina í fríum sínum.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.