Enski boltinn

Engin snilld hjá Mourinho

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Það var létt yfir Mourinho í gær, allavega eftir að Tottenham komst yfir.
Það var létt yfir Mourinho í gær, allavega eftir að Tottenham komst yfir. vísir/getty

Jermaine Jenas segir að José Mourinho, knattspyrnustjóri Tottenham, ætti ekki að fá of mikið hrós eftir sigurinn á Manchester City, 2-0, í gær.

Jenas segir að City hafi farið illa með færin sín í leiknum í gær og það hafi komið í bakið á Englandsmeisturunum.

„Til að byrja með var Tottenham þétt fyrir en City gerði það sem þeir gera alltaf og opnuðu vörnina þeirra. Spurs sýndi karakter og hékk inni í leiknum þökk sé nokkrum stórum augnablikum, eins og þegar Hugo Lloris varði vítið og þá fóru þeir að trúa að þetta yrði þeirra dagur,“ sagði Jenas á BBC.

„En ef City hefði verið jafn beittir fyrir framan markið og þeir eru venjulega hefðu úrslitin verið ráðin löngu áður en Steven Bergwijn kom Tottenham yfir með fyrsta skoti þeirra á markið.“

Jenas segir að snilldarleikáætlun Mourinhos hafi ekki skilað sigrinum í gær.

„Ég hef tekið þátt í svona leikjum áður, þar liðið manns vinnur þrátt fyrir að vera yfirspilað á löngum köflum. Þú gengur að velli sáttur með sigurinn en eftir smá tíma, og þegar þú horfir kannski aftur á leikinn, áttar þig þú á því að þú slappst vel, eins og Spurs gerði,“ sagði Jenas.

„Sannleikurinn er sá að þeir voru mjög heppnir að vera ekki nokkrum mörkum undir áður en rauða spjaldið sem Oleksandr Zinchenko fékk hleypti þeim inn í leikinn. Fyrra mark Spurs kom svo upp úr engu.“

Með sigrinum komst Tottenham upp í 5. sæti ensku úrvalsdeildarinnar. Liðið er fjórum stigum á eftir Chelsea sem er í 4. sætinu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×