Erlent

Stefnu­ræða Trump: For­setinn dá­samaði efna­hags­lífið en Pelosi reif ræðuna

Atli Ísleifsson skrifar
Donald Trump Bandaríkjaforseti flutti stefnuræðu sína í gær. Mike Pence varaforseti og Nancy Pelosi, forseti fulltrúadeildarinnar fylgjast með.
Donald Trump Bandaríkjaforseti flutti stefnuræðu sína í gær. Mike Pence varaforseti og Nancy Pelosi, forseti fulltrúadeildarinnar fylgjast með. AP

Donald Trump Bandaríkjaforseti hélt í nótt stefnuræðu sína á Bandaríkjaþingi þar sem hann lagði línurnar fyrir komandi kjörtímabil en hann sækist eftir endurkjöri. Í ræðu sinni dásamaði hann efnahagslífið í landinu og talaði um hina mikilfenglegu endurkomu landsins á efnahagssviðinu.

Hann minntist ekki orði á ákæruna sem gefin var út á hendur honum af hluta þeirra þingmanna sem sátu og hlýddu á ræðuna en augljóst var að það andaði köldu á milli. Til að mynda virtist Trump neita að taka í höndina á Nancy Pelosi, sem er forseti fulltúradeildarinnar og sú sem lagði fram ákæruna á hendur forsetanum.

Pelosi tók sig síðan til og reif ræðu forsetans í tvennt eftir að hann hafði nýlokið við að flytja hana, en Pelosi sat að baki forsetanum ásamt varaforsetanum Mike Pence á meðan á flutningnum stóð.

Nancy Pelosi reif ræðu forsetans að henni lokinni.AP

Þá var einum mótmælenda vísað úr salnum sem lét í sér heyra þegar forsetinn fór að verja rétt fólks til að eiga skotvopn. Þar var á ferðinni Fred Guttenberg, sem sérstaklega hafði verið boðið til samkomunnar af Nancy Pelosi, en hann er faðir stúlku sem skotin var til bana í Parkland skólanum árið 2018.

Á meðal gesta forsetans voru hins vegar Juan Guaídó, leiðtogi stjórnarandstöðunnar í Venesúela og íhaldssami þáttastjórnandinn Rush Limbough en forsetinn ákvað að sæma hann Frelsisorðunni, æðstu orðu sem óbreyttur borgari á kost á í Bandaríkjunum.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.