Erlent

Kenna Ísraelum um að farþegaþota hafi næstum verið skotin niður

Samúel Karl Ólason skrifar
Ísraelar hafa lengi gert fjölmargar árásir í Sýrlandi sem beinast gegn Írönum þar en í flestum tilfellum tjá þeir sig ekki um árásirnar.
Ísraelar hafa lengi gert fjölmargar árásir í Sýrlandi sem beinast gegn Írönum þar en í flestum tilfellum tjá þeir sig ekki um árásirnar. EPA/ABIR SULTAN

Varnarmálaráðuneyti Rússlands segir stjórnarher Bashar al-Assad næstum því hafa skotið niður farþegaþotu með 172 farþega innanborðs í gær. Flugstjórar hafi neyðst til að lenda flugvélinni á herflugvelli Rússa í Sýrlandi. Ástæða þessa er, samkvæmt Rússum, að á sama tíma voru Ísraelar að gera loftárásir í Sýrlandi og saka Rússar Ísraela um að hafa skýlt sér bakvið farþegaþotuna.

Samkvæmt ásökunum Rússa var verið að lenda flugvélinni í Damascus þegar árásir Ísraela hófust. Það sé einungis góðum viðbrögðum flugumferðarstjóra að þakka að ekki hafi illa farið.

Talsmaður varnarmálaráðuneytisins sagði einnig að flugmenn Ísrael nýti sér reglulega farþegaþotur þegar skotið væri á þá og skýli sér á bakvið þær. Talsmaðurinn hélt því einnig fram að stjórnarher Sýrlands hafi stöðvað árásir Ísrael.

Ísraelar hafa lengi gert fjölmargar árásir í Sýrlandi sem beinast gegn Írönum þar en í flestum tilfellum tjá þeir sig ekki um árásirnar. Mörgum þeirra árása er ætlað að sporna gegn vopnasendingum til Hezbollah, sem Íranar styðja. Þá hafa þeir varað Bashar al-Assad, forseta Sýrlands, við því að skjóta á orrustuþotur Ísrael.

Þá er vert að benda á að árið 2018 skutu hermenn stjórnarhersins rússneska njósnaflugvél niður fyrir mistök, þegar Ísraelar voru að gera loftárásir í Sýrlandi. Fimmtán áhafnarmeðlimir rússnesku flugvélarinnar dóu. Ísraelar neituðu alfarið sök þá.

Sjá einnig: Ísrael segir Assad-liðum alfarið um að kenna

Þá drógu sérfræðingar verulega í efa að flugmenn Ísrael gætu á einhvern hátt skýlt sér á bakvið aðrar flugvélar og þá sérstaklega svo hægfara flugvélar.

Syrian Observatory For Human Rights, sem rekur umfangsmikið net heimildarmanna í Sýrlandi, segir minnst 23 hafa fallið í árásum Ísrael í gær. Þá hafi árásir verið gerðar á þrjú skotmörk. Ríkisstjórn Assad segir þó að loftárásirnar hafi verið stöðvaðar og allar eldflaugarnar hafi verið skotnar niður.

Tengd skjöl
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.