Erlent

Slökktu á kerfum sjónaukans Spitzer

Samúel Karl Ólason skrifar
Spitzer er á sambærilegri sporbraut um sólina og jörðin.
Spitzer er á sambærilegri sporbraut um sólina og jörðin. Vísir/NASA

Vísindamenn Geimvísindastofnunar Bandaríkjanna, NASA, slökktu í kvöld á Spitzer sjónaukanum sem hefur tekið infrarauðar myndir af alheiminum í tæp sautján ár. Skipunin var send skömmu fyrir klukkan tíu í kvöld en það tók skipunina um fimmtán mínútur að ná til sjónaukans, sem er á braut um sólina á svipuðum ferli og jörðin.

Á þessum tæpu sautján árum hefur Spitzer tekið fjölda stórfenglegra mynda af fjarlægum sólkerfum sem hafa aukið skilning okkar á alheiminum og þeim lögmálum sem hann fylgir. Með því að nota gögn frá Spitzer tókst geimvísindamönnum til dæmis að uppgötva Trappist-1 sólkerfið sem inniheldur sjö reikistjörnur á stærð við jörðina.

Sjá einnig: Fundu ummerki um vatn í sólkerfinu Trappist-1

Spitzer var skotið á loft þann 25. ágúst 2003. Sjónaukinn var einn af fjórum stórum sjónaukum sem NASA skaut á loft á þeim tíma og notaðir voru til að rannsaka víðáttur geimsins. Tveir þeirra, Hubble og Chandra X-Rey Observatory, eru enn í notkun. Sá fjórði, Compton Gamma Ray Observatory, var látinn brenna upp í gufuhvolfinu árið 2000 vegna bilunar.

Spitzer mun þó ekki hljóta sömu örlög. Þó slökkt hafi verið á kerfum sjónaukans mun hann líklegast eiga sér langa sögu. Áætlað er að Spitzer verði á braut um sólina í um sextíu ár en þá mun sjónaukinn fara af braut og þjóta út í stjörnuþokuna.

Fyrr í mánuðinum birti NASA myndband þar sem farið var yfir feril Spitzer. Það myndband má sjá hér að neðan.

Hér að neðan má svo sjá nokkrar af flottustu myndunum sem teknar voru með Spitzer. Fleiri myndir og upplýsingar má finna hér á vef CalTech.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×