Erlent

Bretar komnir út úr Evrópusambandinu

Eiður Þór Árnason skrifar
Margir Bretar fögnuðu í kvöld útgöngunni úr Evrópusambandinu á sama tíma og aðrir syrgðu.
Margir Bretar fögnuðu í kvöld útgöngunni úr Evrópusambandinu á sama tíma og aðrir syrgðu. Vísir/AP

Nú klukkan ellefu að íslenskum tíma gekk Bretland loks úr Evrópusambandinu eftir langt og strembið útgönguferli. Við tekur ellefu mánaða langt aðlögunarferli sem Bretar munu meðal annars nýta til þess að gera viðskiptasamninga við aðildarríki evrópska efnahagssvæðisins.

Bretar munu áfram fara eftir Evrópureglugerðum til ársloka og eiga einnig eftir að semja við Evrópusambandið um hvernig framtíðarsambandi verði háttað. Því er ljóst að aðskilnaðarferli Bretlands og Evrópusambandsins er ekki enn lokið þrátt fyrir formlega útgöngu í dag. Nokkur óvissa mun því enn bíða Breta og fylgjast margir með því hvort að þeim takist að klára fyrrnefnda samninga fyrir árslok.

Sjá einnig: Áhrifin engin fyrir Íslendinga í Bretlandi fram að áramótum

Þrjú og hálft ár er liðið frá því breska þjóðin samþykkti í þjóðaratkvæðagreiðslu að ganga út úr ESB. Segja má að undanfarin misseri hafi þar einkennst af ringulreið og upplausn. Bretar hafa í tvígang boðað snemma til kosninga á þessu tímabili, tvisvar hefur verið skipt um forsætisráðherra og í tvö skipti var útgöngu frestað eftir að breska þingið felldi samninga sem höfðu náðst við Evrópusambandið um útgönguna.

Útganga Breta mun byggja á því samkomulagi sem Boris Johnson, núverandi forsætisráðherra, náði við forsvarsmenn ESB í október á síðasta ári. Það samkomulag var samþykkt í neðri deild breska þingsins með miklum meirihluta eða með 358 atkvæðum gegn 234.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×