Erlent

Boris Johnson segir Brexit upphaf en ekki endi

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, fylgir Brexit úr hlaði með ávarpi til þjóðar sinnar í kvöld.
Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, fylgir Brexit úr hlaði með ávarpi til þjóðar sinnar í kvöld. vísir/epa

Bretland gengur úr Evrópusambandinu í dag. Þrjú og hálft eru liðin síðan breska þjóðin samþykkti Brexit í atkvæðagreiðslu þar sem afar mjótt var á mununum; 52 prósent vildu útgöngu en 48 prósent voru henni andvíg.

Nú tekur við ellefu mánaða aðlögunartímabil þar sem Bretland telst vera de facto-aðili að innri markaði ESB en hvað tekur við að því loknu er óljóst.

Á komandi mánuðum munu Bretar eiga í samningaviðræðum við ESB sem og EES-ríkin, þar með talið Ísland, um það hvernig framtíðarsambandi landsins við sambandið verður háttað.

Það þarf til dæmis að semja um frjálsa för fólks, tolla og markaðsviðskipti og þjónustuviðskipti. Það má því segja að verkefnið framundan sé ærið.

Útgangan er klukkan ellefu í kvöld en klukkustund áður, klukkan tíu, mun Boris Johnson, forsætisráðherra Breta, ávarpa þjóð sína. Fjallað er um innihald ræðunnar á vef BBC þar sem segir að Johnson muni meðal annars fagna upphafi nýs tímabils.

Brexit sé upphaf en ekki endir og það að slíta böndin við 27 aðildarríki ESB sé raunveruleg byrjun og breyting fyrir Breta. Lítið muni þó breytast til að byrja með á meðan aðlögunartímabilið stendur yfir.

„Það mikilvægast sem þarf að segja í kvöld er að þetta er ekki endir heldur upphaf. Þetta er stund nýrrar dögunar og leiktjaldið fer upp fyrir næsta þátt. Þetta er stund raunverulegrar byrjunar og breytingar,“ mun Johnson segja í ræðunni.


Tengdar fréttir

Segir Bretland komið yfir „Brexit-marklínuna“

Lávarðadeild breska þingsins samþykkti í kvöld frumvarp sem ætlað er að lögleiða útgöngusamning Bretlands við Evrópusambandið. Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, segir Brexit svo gott sem í höfn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×