Erlent

Biðjast afsökunar á að hafa smánað fólk í náttfötum

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Ein þeirra mynda sem borgaryfirvöld birtu.
Ein þeirra mynda sem borgaryfirvöld birtu. Suzhou

Stjórnvöld í kínversku borginni Suzhou hafa beðist afsökunar á því að hafa smánað borgara sem gerðust uppvísir að því að klæðast náttfötum á almannafæri.

Borgaryfirvöld birtu í gær opinberlega myndefni úr öryggismyndavélum borgarinnar sem sýndi sjö einstaklinga klædda náttfötum á götum borgarinnar. Nöfn einstaklinganna, ökuskírteini þeirra aðrar persónuupplýsingar fylgdu myndbirtingunni, auk þess sem borgaryfirvöld sögðu hegðun hinna náttfataklæddu borgara „ósiðmenntaða.“

Yfirvöld birtu einnig myndir af fólki sem talið var hegða sér ósiðsamlega á annan hátt, meðal annars með því að „liggja á bekk á ósiðmenntaðan hátt“ og með því að dreifa auglýsingabæklingum.

Eftirlit með borgurum í Kína hefur farið vaxandi síðustu ár. Fyrir tveimur árum síðan voru öryggismyndavélar í landinu um 170 milljón talsins, en talið er að þeim muni hafa fjölgað um 400 milljónir í lok þessa árs.

Myndbirting borgaryfirvalda olli mikill reiði víða í Kína, og þá einkum og sér í lagi í netheimum. Margir bentu á að ekkert athugavert væri við það að klæðast náttfötum á almannafæri meðan aðrir sögðu yfirvöld hafa brotið gegn friðhelgi einkalífs borgaranna.

Borgaryfirvöld hafa nú beðist afsökunar á athæfi sínu, en báru því þó við að markmið myndbirtingarinnar hafi verið að „binda enda á ósiðmenntaða hegðun,“ þótt réttindi borgara ættu að sjálfsögðu að vera í hávegum höfð.

Yfirvöld í Suzhou virðast þó ekki ætla að láta af myndbirtingu þegar þau telja hegðun borgara sinna ekki í takt við almenna siðgæðisstaðla, heldur hafa þau lofað því að gera myndir sem birtar verða í framtíðinni ópersónugreinanlegar.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.