Erlent

Grunur um kórónaveirusmit á Bretlandseyjum

Kjartan Kjartansson skrifar
Starfsmaður á lestarstöð í Wuhan skimar fyrir farþegum með hita. Almenningssamgöngum til borgarinnar hefur verið lokað vegna faraldursins.
Starfsmaður á lestarstöð í Wuhan skimar fyrir farþegum með hita. Almenningssamgöngum til borgarinnar hefur verið lokað vegna faraldursins. Vísir/EPA

Fimm einstaklingar eru nú til meðferðar og rannsóknar á sjúkrahúsum á Skotlandi og Norður-Írlandi vegna gruns um að fólkið hafi smitast af nýju afbrigði kórónaveiru. Fólkið var allt nýkomið frá kínversku borginni Wuhan þar sem veiran greindist fyrst.

Breska ríkisútvarpið BBC segir að á Skotlandi sé verið að rannsaka fjóra einstaklinga og í Belfast sé karlmaður í einangrun vegna gruns um að hann sé smitaður af veirunni. Sá flaug til Belfast frá Kína um helgina og hafði áður dvalið í Wuhan. Talið er að náðst hafi að einangra sjúklinginn í tæka tíð.

Átján manns eru látnir og á sjöunda hundrað hafa smitast af völdum kórónaveirunnar. Fyrstu smitin voru tengd við markað með lifandi dýr í borginni en síðan hefur verið staðfest að veiran berst á milli manna. Einkennin sem veiran veldur eru sögð minna á lungnabólgu.

Kínversk yfirvöld hafa lokað fyrir umferð til og frá Wuhan, þar sem ellefu milljónir manna búa, og Huanggang, þar sem sex milljónir manna búa, til þess að reyna að hefta útbreiðslu veirunnar. Tilfelli hafa engu að síður greinst í Taílandi, Singapúr og Víetnam. Nokkur ríki hafa tekið til við að skima fyrir veirunni á flugvöllum.

Svæðisstjórnin í Wuhan segist ætla að byggja nýjan sérfræðispítala þar sem tekið verður á móti sjúklingum með veiruna á aðeins sex dögum. Slíkt var gert í Beijing í SARS-faraldrinum árið 2003.


Tengdar fréttir

Talið líklegt að Wuhan-veiran berist til Evrópu

Sóttvarnastofnun Evrópu (ECDC) telur líklegt að Wuhan-veiran geti borist til Evrópu og þá sérstaklega til landa og/eða svæða sem eru með beinar flugsamgöngur til Wuhan-borgar í Kína.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.