Innlent

Talið líklegt að Wuhan-veiran berist til Evrópu

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Útgöngubann er í borginni Wuhan þar sem talið er að uppruni veirunnar sé.
Útgöngubann er í borginni Wuhan þar sem talið er að uppruni veirunnar sé. vísir/getty

Sóttvarnastofnun Evrópu (ECDC) telur líklegt að Wuhan-veiran geti borist til Evrópu og þá sérstaklega til landa og/eða svæða sem eru með beinar flugsamgöngur til Wuhan-borgar í Kína.

Frekari dreifing innan landa Evrópu er ólíkleg, sérstaklega ef einstaklingar greinast fljótt og viðeigandi einangrun er beitt.

Frá þessu er greint á vef landlæknis en samkvæmt vefsíðunni Flight Connections eru bein flug til Wuhan frá London, París, Moskvu og Róm.

 

Á vef landlæknis segir að sóttvarnalæknir fylgist náið með upplýsingum um sjúkdóminn sem tilkominn er vegna Wuhan-veirunnar frá Alþjóðaheilbrigðismálastofnunni (WHO) og ECDC.

Wuhan-veiran er ný tegund af nýrri kórónaveiru en margt er enn óljóst um sjúkdóminn af völdum veirunnar.

Smit milli einstaklinga virðist ekki vera algengt

Eftirfarandi er þó vitað með þessu:



•    Uppruni veirunnar virðist einkum vera í Wuhan borg í Kína og þá aðallega á ákveðnum matarmarkaði í borginni. Rannsóknir standa nú yfir í Kína hvort veiruna megi einnig finna á öðrum stöðum.

•    Þeir einstaklingar sem greinst hafa með þessa nýju veiru hafa nánast allir komið frá Wuhan borg. Þeir hafa ýmist ferðast til annarra staða í Kína, til annarra landa í Asíu eða til annarra landa utan Asíu.

•    Smit á milli einstaklinga hefur verið staðfest en virðist enn sem komið er ekki vera algengt.

•    Enginn einstaklingur hefur enn sem komið er greinst í Evrópu en veiran hefur greinst í Bandaríkjunum hjá einstaklingi sem kom frá Wuhan borg.

•    Sýkingin hefur nú verið staðfest hjá um 600 einstaklingum en að öllum líkindum er fjöldi sýktra verulega meiri.

•    Í dag, 23. janúar 2020, hafa 17 einstaklingar látist af völdum veirunnar en allir voru með undirliggjandi sjúkdóma.

•    Kínverjar hafa gripið til róttækra aðgerða í því skyni að stöðva útbreiðslu faraldursins eins og samgöngu- og samkomubanns sem vonandi mun hefta útbreiðsluna.

Áhættumat ECDC á veirunni í dag er eftirfarandi:

•    Líklegt er að veiran geti borist til Evrópu, sérstaklega til landa/svæða sem eru með beinar flugsamgöngur til Wuhan borgar í Kína.

•    Frekari dreifing innan landa Evrópu er ólíkleg, sérstaklega ef einstaklingar greinast fljótt og viðeigandi einangrun er beitt.

•    Veiran virðist ekki valda jafn skæðum sjúkdómi og SARS veiran gerði 2002 en þá létust um 10% af þeim sem sýktust.

Ekki ástæða til að skima farþega hér á landi

Varðandi viðbúnað hér á landi segir á vef landlæknis að opinber viðbrögð muni miðast við alvarleika hinnar nýju veiru í ljósi nýrra áreiðanlegra upplýsinga:



•    Undirbúningur á Íslandi er samkvæmt viðbragðsáætlunum sóttvarnalæknis og almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra. Í því felst að leiðbeiningar og áætlanir frá SARS-faraldrinum 2002 verða uppfærðar og viðbragðsaðilar upplýstir.

•    Leiðbeiningar til heilbrigðisstarfsmanna verða uppfærðar og gefnar út.

•    Gefnar verða út leiðbeiningar til almennings um hvernig eigi að nálgast heilbrigðiskerfið ef grunur vaknar um sýkingu af völdum hinnar nýju veiru.

•    Leiðbeiningar verða gefnar til ferðamanna um viðbrögð heilbrigðisyfirvalda á Íslandi og hvernig ferðamenn geti nálgast heilbrigðiskerfið hér á landi.

•    Á alþjóðlegum flugvöllum landsins verður unnið samkvæmt landsáætlun um sóttvarnir flugvalla.

•    Heilbrigðisstofnanir verða hvattar til að uppfæra sínar viðbragðsáætlanir.

•    Ekki er ástæða til að hvetja til ferðabanns til Kína en ferðamenn eru hvattir til að huga vel að sýkingavörnum.

•    Ekki er ástæða til að skima farþega á flugvöllum hér á landi.


Tengdar fréttir

Á­hyggjur Wu­han-búa fara vaxandi

Kínversk yfirvöld hafa svo gott sem lokað borginni þar sem ný tegund af kórónaveiru virðist hafa átt upptök sín.

Loka annarri borg í Kína

Yfirvöld Kína hafa tilkynnt að annarri borg, Huanggang, sem liggur nærri Wuhan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×