Erlent

Þriggja ára stúlka fannst eftir að hafa horfið í sólarhring

Samúel Karl Ólason skrifar
Matilda ásamt foreldrum sínum og hundi auk margra þeirra sem að leitinni komu.
Matilda ásamt foreldrum sínum og hundi auk margra þeirra sem að leitinni komu. Vísir/Lögreglan í Vestur Ástralíu

Hinni þriggja ára gömlu Matildu var bjargað af leitarmönnum í Ástralíu í morgun eftir að hún hafði verið týnd í tæpan sólarhring. Barnið var án skjóls og matar en hundur hennar var með henni. Mikil rigning hefur verið á svæðinu og var óttast að stúlkan hefði lent í flóði og drukknað.

Matilda fannst í um 3,5 kílómetra fjarlægð frá heimili hennar.

Björgunarsveitir og lögregluþjónar leituðu á landi og úr lofti en fyrirtæki á svæðinu lögðu þyrlur til leitarinnar og nágrannar Matildu riðu um á hestbaki í leit að henni. Að endingu sáust hún og hundurinn úr þyrlu.

Samkvæmt frétt ABC telur lögreglan að Matilda hafi farið yfir læk nærri heimili sínu en skömmu eftir það jókst flæði lækjarins verulega vegna rigningar og komst barnið ekki aftur yfir lækinn. Nánast öll landareignin, sem er um 368 þúsund hektarar, var undir vatni um tíma.

Lögreglustjórinn Kim Massam segir það hafa verið yndislega tilfinningu þegar Matilda fannst og hann segir það mikla lukku að þetta hafi farið svo vel. Hann hrósaði líka hundi Matildu og sagði hann ekki hafa vikið frá henni allan tímann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×