Erlent

Prófa sig áfram með íblöndun vetnis í gas

Kjartan Kjartansson skrifar
Jarðgas er notað til að hita upp hús og til eldunar víðast á Bretlandi. Hægt væri að draga verulega úr losun koltvísýrings með því að blanda vetni út í gasið.
Jarðgas er notað til að hita upp hús og til eldunar víðast á Bretlandi. Hægt væri að draga verulega úr losun koltvísýrings með því að blanda vetni út í gasið. Vísir/EPA

Tilraun með að blanda vetni út í jarðgas til húshitunar og eldunar sem gæti dregið verulega úr losun gróðurhúsalofttegunda er hafin á háskólagarði á Bretlandi. Talið er að það gæti jafnast á við að taka á þriðju milljón bíla úr umferð verði hægt að taka upp vetnisblöndun gass á landsvísu.

Vetnið sem er blandað út í jarðgas í Keele-háskólanum í Stoke-on-Trent er framleitt með rafgreiningu vatns. Tilraunin, sem gasdreififyrirtækið Cadent stendur að, er sú fyrsta sinna tegundar á Bretlandi og hefur gefist vel fram að þessu, að því er kemur fram í umfjöllun breska ríkisútvarpsins BBC.

Jarðgas til upphitunar er uppspretta um þriðjungs heildarlosunar Bretlands á gróðurhúsalofttegundum sem valda hnattrænum loftslagsbreytingum á ári. Aukaafurð bruna á vetni er aðeins hreint vatn. Aðstandendur tilraunaverkefnisins telja að yrði 20% vetni blandað út í jarðgas á landsvísu væri hægt að draga úr losun á koltvísýringi um sex milljónir tonna, jafngildi þess að taka tvær og hálfa milljón bíla úr umferð.

Hlutfallið 20% varð fyrir valinu því það er talið heppilegast svo að gasleiðslur og tæki verði ekki fyrir áhrifum af breytingunni.

Helsti gallinn við íblöndun vetnis í jarðgas felst í framleiðslunni á vetni. Í framtíðinni væri hægt að framleiða vetni á vistvænan hátt með rafgreiningu á vetni sem væri knúin vindorku á nóttunni. Eins og stendur væri ódýrara að framleiða vetnið úr jarðgasi en því fylgir losun á koltvísýringi sem þyrfti að binda.

Engu að síður eru sumir framleiðendur miðstöðvarkatla þegar byrjaðir að hanna katla sem brenna 100% vetni. Í skýrslu sem var unnin fyrir bresku ríkisstjórnina var tæpt á þeim möguleika að nota varmadælur með vetnismiðstöðvarkatla til að hita upp hús í landinu í stað jarðgass.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×