Erlent

Netanyahu segir að Ísrael muni svara fyrir sig

Samúel Karl Ólason skrifar
Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísrael.
Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísrael. AP/RONEN ZVULUN

Ráðist Íranir á Ísrael, eins og þeir hafa hótað, munu Ísraelar svara fyrir sig og veita Íran þungt högg. Þetta sagði Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísrael í morgun. Hann tjáði sig í kjölfar þess að Íran skaut fjölda eldflauga að tveimur herstöðvum í Írak þar sem bandarískir hermenn halda til. Þær árásir voru hefndaraðgerðir vegna þess að Bandaríkin felldu íranska hershöfðingjann Qasem Soleimani í loftárás í síðustu viku.

„Við stöndum fast gegn þeim sem vilja drepa okkur. Við stöndum ákveðin og af krafti. Hver sem reynir að ráðast á okkur mun hljóta þungt högg,“ sagði Netanyahu samkvæmt Times of Israel.

„Qasem Soleimani var ábyrgur vegna dauðsfalla óteljandi saklausra aðila. Hann gróf undan jafnvægi margra ríkja. Í áratugi, dreifði hann ótta, eymd og sorg og hann var að skipuleggja eitthvað mun verra.“

Þá sagði Netanyahu að Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, ætti hrós skilið fyrir að ráða Soleimani af dögum. Lýsti hann hershöfðingjanum sem hryðjuverkamanni og sagði hann hafa skipulagt og stjórnað „hryðjuverkaárásum“ Íran um gervöll Mið-Austurlönd.

Forsætisráðherrann lýsti einnig yfir fullum stuðningi við Bandaríkin í átökum þeirra við Íran.

Þjóðaröryggisráð Íran kom saman á mánudaginn. Á þeim fundi kom fram að ísraelskir embættismenn teldu afar ólíklegt að Íran ráðist á Ísrael.


Tengdar fréttir

Trump um árás Írana: Segir að enn sem komið er sé „allt í lagi“

Donald Trump Bandaríkjaforseti segir "allt vera í góðu“ eftir að Íranir skutu eldflaugum á bandarískar herstöðvar í nótt. Forsetinn segir að verið sé að meta hvort að manntjón hafi orðið og eyðilegging, en að enn sem komið er væri ástandið í lagi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×