Erlent

Trump um árás Írana: Segir að enn sem komið er sé „allt í lagi“

Atli Ísleifsson skrifar
Donald Trump segist ætla að koma með yfirlýsingu að morgni.
Donald Trump segist ætla að koma með yfirlýsingu að morgni. Getty

Donald Trump Bandaríkjaforseti segir „allt vera í góðu“ eftir að Íranir skutu eldflaugum á bandarískar herstöðvar í nótt. Forsetinn segir að verið sé að meta hvort að manntjón hafi orðið og eyðilegging, en að enn sem komið er væri ástandið í lagi.

Þetta kom fram í Twitterfærslu Trumps fyrir um fjórum tímum. Sagði hann að hann kæmi með yfirlýsingu næsta morgun, það er um hádegisbil í dag að íslenskum tíma.

Íranir skutu í nótt eldflaugum á tvær herstöðvar Bandaríkjanna í Írak. Íranska ríkissjónvarpið greindi frá því að um væri að ræða hefnd fyrir morðið á hershöfðingjanum Qasem Soleimani sem myrtur var í drónaárás Bandaríkjahers í Bagdad í síðustu viku.

Í Twitter-færslunni stærir Trump sig ennfremur af her landsins og segir hann Bandaríkjamenn vera með langöflugasta og best búna her í heimi.

Varnarmálaráðuneyti Bandaríkjanna staðfesti að Íranir hafi skotið meira en tólf eldflaugum á herstöðvarnar en ekki er ljóst hvort einhver hafi látið lífið í árásunum. Stöðvarnar eru í Irbil annarsvegar og í al Asad hinsvegar.

Utanríkisráðherra Írana, Javad Zarif hefur einnig tíst um árásirnar sem hann segir að hafi verið í fullu samræmi við rétt Írana til að beita sjálfsvörn, eftir árásina á Soleimani. Hann segir að Íranar vilji ekki auka á ófriðinn á svæðinu, en tekur fram að landið muni verja sig gegn hverskyns árásum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×