Erlent

Íranir skjóta eldflaugum á herstöðvar Bandaríkjanna í Írak

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Ali Khamenei, leiðtogi Írans.
Ali Khamenei, leiðtogi Írans. Vísir/Getty

Íranir hafa skotið eldflaugum á herstöð Bandaríkjanna, Al-Asad, í vesturhluta Írak sem og á herstöðina í Irbil.

Íranska ríkissjónvarpið greindi frá því að um væri að ræða hefnd fyrir morðið á hershöfðingjanum Qasem Soleimani sem myrtur var í drónaárás Bandaríkjahers í Bagdad í síðustu viku.

Varnarmálaráðuneyti Bandaríkjanna hefur staðfest að Íranir hafi skotið meira en tólf eldflaugum á herstöðvarnar en ekki er ljóst hvort einhver hafi látið lífið í árásunum.

„Við erum meðvituð um fréttir af árásum á herstöðvar Bandaríkjanna í Írak. Forsetinn hefur fengið upplýsingar um málið, fylgist náið með stöðunni og er að ráðfæra sig við þjóðaröryggisráð sitt,“ sagði í yfirlýsingu frá Stephanie Grisham, upplýsingafulltrúa Hvíta hússins.

Íranski byltingarvörðurinn, sá hluti Íransher sem Soleimani fór fyrir, segir árásirnar hefnd.

„Við vörum alla bandamenn Bandaríkjanna við, sem hafa látið þessum hryðjuverkaher herstöðvar sínar í té, að hvert einasta ríki þar sem ráðist er gegn Íran er skotmark,“ sagði í yfirlýsingu byltingarvarðarins sem lesin var upp af írönsku ríkisfréttastofunni.

Fréttin hefur verið uppfærð.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×