Erlent

Segir dómarann vanhæfan í máli Weinstein

Sylvía Hall skrifar
Weinstein mætir í dómsal.
Weinstein mætir í dómsal. Vísir/EPA

Arthur Aidala, lögmaður kvikmyndaframleiðandans Harvey Weinstein, hefur beðið dómara í kynferðisbrotamáli Weinstein um að segja sig frá málinu vegna vanhæfis. Hann segir dómarann hafa gert sig vanhæfan með því að hóta framleiðandanum fangelsisvist vegna símanotkunar í dómsal.

Sjá einnig: Dómari hótaði að senda Wein­­stein í fangelsi fyrir að nota síma í réttar­­salnum

Réttarhöld yfir Weinstein hófust í New York á mánudag og er hann ákærður fyrir að hafa nauðgað tveimur konum. Tugir annarra kvenna hafa þó stigið fram og sakað hann um nauðgun og kynferðislega áreitni.

Við réttarhöld á mánudag áminnti dómarinn Weinstein fyrir símanotkun. Spurði hann Weinstein hvort þetta væri það sem hann ætlaði í lífstíðarfangelsi fyrir, að senda smáskilaboð og brjóta með því reglur réttarins.

Weinstein neitaði að hafa notað símann sinn en lögmaður hans segir ummælin lýsa afstöðu dómarans gagnvart Weinstein. Þau gefi í skyn að hann hafi þegar gert upp hug sinn varðandi sekt hans í málinu. Með því að gefa í skyn að hann gæti átt yfir höfði sér lífstíðarfangelsi vegna símanotkunar hafi dómstóllinn þegar ákvæðið að dæma hann í lífstíðarfangelsi.

Þá hefur Aidala sagt að hann muni biðja um frestun ef ekki verður skipt um dómara í málinu.

„Það er enginn vafi um það að sanngirni réttarhaldanna hafi beðið skaða,“ sagði Aidala. 


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.