Erlent

Dómari hótaði að senda Wein­­stein í fangelsi fyrir að nota síma í réttar­­salnum

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Harvey Weinstein kemur til réttarhaldanna í New York.
Harvey Weinstein kemur til réttarhaldanna í New York. vísir/epa

Réttarhöldin yfir fyrrverandi kvikmyndaframleiðandanum Harvey Weinstein héldu áfram í New York í dag en fyrsti dagur réttarhaldanna var í gær.

Dagurinn í dag hófst ekki beint á ljúfu nótunum þar sem dómarinn í málinu, James Burke, lét Weinstein heyra það vegna þess að hann notaði síma sinn í réttarsalnum.

Raunar hótaði dómarinn því að senda Weinstein í fangelsi fyrir að nota símann en framleiðandinn fyrrverandi gengur laus gegn tryggingu. Hótaði dómarinn því að fella trygginguna úr gildi ef Weinstein hagaði sér ekki í réttarsalnum.

Að því er fram kemur í frétt Guardian um málið skeytir dómarinn ekki oft skapi. Svo virðist sem honum hafi hins vegar verið nóg boðið þar sem Weinstein hafði fengið mörg tilmæli um að hann mætti ekki nota símann í réttarsalnum.

„Herra Weinstein, ég get ekki grátbeðið þig meira um að svara ekki símanum. Er það virkilega svona sem þú vilt enda í fangelsi það sem eftir lifir ævi þinnar, fyrir að senda textaskilaboð þvert á dómsúrskurð?“ sagði Burke.

„Ég legg til að þú nýtir þér rétt þinn til að þegja núna“

Hann sagði svo við aðallögmann Weinstein, Arthur Aidala, að ef Weinstein yrði aftur gripinn við að nota símann myndi hann fella úr gildi tveggja milljóna dollara trygginguna.

„Ég ráðlegg þér að taka síma Weinstein áður en þið komið í réttarsalinn og setja hann í skjalatösku þína. Mér skilst að hann hafi afhent símann sinn en svo var hann með tvo aðra síma á sér,“ sagði dómarinn.

Þegar það leit út fyrir að Weinstein ætlaði að segja eitthvað lét Burke hann áfram heyra það:

„Ég legg til að þú nýtir þér rétt þinn til að þegja núna.“

Verjendur Weinstein mótmæltu þessum orðum dómarans og sögðu skjólstæðing sinn ekki njóta sanngjarnar meðferðar.

New York-ríki höfðar málið gegn Weinstein sem er ákærður fyrir að hafa nauðgað tveimur konum.  

Fleiri tugir kvenna hafa undanfarin tvö ár sakað Weinstein um kynferðisofbeldi og í gær var greint frá því að ákæra um nauðgun og kynferðisbrot hefði einnig verið gefin út á hendur honum í Los Angeles.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×